Stjórnvöld í Þýskalandi ætla ekki að leggja blessun sína yfir fríverslunarsamning á milli Evrópusambandsins og Kanada sem er á lokametrunum. Þetta fullyrðir þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung samkvæmt frétt Reuters. Samningurinn við Kanada er af mörgum álitinn fyrirmyndin að fyrirhuguðum fríverslunarsamningi á milli ESB og Bandaríkjanna. Öll ríki sambandsins þurfa að staðfesta samninginn.
Þýska blaðið hefur eftir ónafngreindum háttsettum embættismanni hjá framkvæmdastjórn ESB að þýska ríkisstjórnin gæti ekki samþykkt fríverslunarsamninginn við Kanada eins og hann væri núna. Einkum kæmi þar til ákvæði sem gerði fyrirtækjum kleift að fara í mál við ríkisstjórnir sem aðild eiga að samningnum ef sett eru lög sem ganga gegn honum. Hliðstætt ákvæði í fyrirhuguðum fríverslunarsamningi á milli ESB og Bandaríkjanna hefur einnig verið harðlega gagnrýnt.
„Fríverslunarsamningurinn við Kanada er prófraun á samninginn við Bandaríkin,“ er haft eftir embættismanninum. Ef samningnum við Kanada yrði hafnað „þá er samningurinn við Bandaríkin líka dauður.“ Fram kemur í fréttinni að þýsk stjórnvöld telji slíkt ákvæði ekki nauðsynlegt en þau hafa lýst hliðstæðri afstöðu í tengslum við viðræðurnar við Bandaríkin. ESB hefur hins vegar haldið því fram að kanadísk fyrirtæki myndu ekki fjárfesta innan sambandsins án slíkt ákvæðis.