Norska lögreglan vaktar sérstaklega moskur í Ósló í dag vegna yfirvofandi hryðjuverkaógnar. Síðdegis hefur lögreglan boðað til blaðamannafundar um málið.
Sérstök öryggisgæsla var við moskur í höfuðborginni í morgun er margir tóku þátt í helgiathöfnum í tengslum við trúarhátíð múslíma, en nú er lokið föstumánuðinum ramadan. Þetta kemur fram í frétt Aftenposten.
Lögreglan hafði heimildir fyrir því að skæruliðar hefðu farið frá Sýrlandi í síðustu viku til þess að vinna hryðjuverk, að öllum líkindum í Noregi, og það jafnvel í dag, mánudag.
Lögreglan er enn með mikinn viðbúnað vegna málsins en Benedicte Björneland, forstöðumaður öryggisdeildar norsku lögreglunnar, sagði þó í gær að minni hætta væri á hryðjuverkum í landinu á næstu dögum en í fyrstu var talið.