Bandarísk stjórnvöld saka Rússa um að brjóta gegn svonefndum INF-samningi sem Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna og Mikhail Gorbachev, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, undirrituðu árið 1987 og fólst í að útrýma meðaldrægum kjarnorkuflaugum. Í janúar hafi Rússar skotið slíkri flaug á loft.
Ásakanir bandarískra stjórnvalda eru settar fram á versta tíma, þegar samband Bandaríkjanna og Rússa er afar stirt vegna ástandsins í Úkraínu. AFP-fréttaveitan hefur eftir háttsettum embættismanni innan bandaríska stjórnkerfisins að tilraunir Rússa með meðaldrægar kjarnorkuflaugar séu litnar mjög alvarlegum augum og Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hafi þegar sent Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, erindi vegna þessa.
Bandaríkjamenn segja að Rússar hafi skotið flauginni á loft í janúar á þessu ári.