Forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, vildi ekki skrifa sig fyrir bréfi sem leiðtogar norrænna jafnaðarmannaflokka hafa sent frá sér þar sem umfang hernaðaraðgerða Ísraels á Gaza-ströndinni er fordæmt. Þá eru ísraelsk stjórnvöld hvött til þess að láta af hernámi sínu á Vesturbakkanum og losa Gaza úr þeirri einangrun sem svæðið búi við. Danska dagblaðið Politiken greinir frá þessu.
Fram kemur í fréttinni að aðrir leiðtogar jafnaðarmanna á Norðurlöndunum undirriti bréfið og þar á meðal Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Thorning-Schmidt hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir þessa ákvörðun en hún er eini jafnaðarmannaleiðtoginn á Norðurlöndunum sem á aðild að ríkisstjórn. Haft er eftir Holger K. Nielsen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, að hugsanleg skýring á ákvörðun forsætisráðherrans séu náin söguleg tengsl danskra jafnaðarmanna við Ísrael.
Ennfremur segir í fréttinni að Thorning-Schmidt sé í sumarleyfi en haft er eftir talsmanni hennar, Ane Halsboe-Jørgensen, að áherslur danskra stjórnvalda taki mið af stefnu Evrópusambandsins og rúmist innan hennar.