Mikið mannfall hefur orðið í átökum Ísraelshers og Hamas-samtakanna á Gaza síðan 8. júlí. Samkvæmt upplýsingum frá björgunar- og hjálparsveitum á Gaza hafa 1.363 Palestínumenn fallið og 58 Ísraelar hafa látið lífið, auk eins taílensks verkamanns í Ísrael.
Stjórnvöld í Ísrael hafa hins vegar sagst hafa búið sig undir langvinnan hernað á Gaza, og ætli sér að eyðileggja öll þau göng sem Hamas-liðar nota til að komast út af Gaza inn í Ísrael.
Í frétt BBC kemur fram að um 425 þúsund Palestínumenn á Gaza hafi þurft að flýja heimili sín vegna stríðsins. Sameinuðu þjóðirnar segja að yfir 225 þúsund Palestínumenn séu í 86 flóttamannabúðum stofnunarinnar á Gaza. Um 200 þúsund til viðbótar eru taldir hafa fengið skjól hjá vinum og vandamönnum.
Þetta þýðir að um 25% allra íbúa á Gaza hafa þurft að flýja vegna átakanna.