Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fordæmt nýlega sprengjuárás Ísraelshers á skóla sem Sameinuðu þjóðirnar notuðu til að hýsa flóttafólk á Gaza. Er árásin sögð „gjörsamlega óásættanleg og algjörlega óverjandi.“ Þetta eru sterkustu gagnrýni Bandaríkjanna á hernaðaraðgerðir Ísraels, bandamanna sinna, til þessa, samkvæmt BBC. Þá voru Ísraelsk stjórnvöld hvött til að gera meira til að koma í veg fyrir dauðsföll óbreyttra borgara.
Fjórðungur íbúa Gaza hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna átakanna, samkvæmt Sameinuðu Þjóðunum. 1.422 Palestínumenn hafa látið lífið síðan Ísrael hóf árásir 8. júlí og margfalt fleiri slasast. Þar af er megnið óbreyttir borgarar, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa.
Ísrael segir aðgerðir sínar í Gasa vera til þess að verja íbúa landsins gegn árásum herskárra Palestínumanna. Ísraelsmegin er Hamas samtökunum kennt um dauðsföll borgara í Gaza, sem þeir segja að starfi af ásettu ráði á svæðum þar sem mikið er um óbreytta borgara. Þeir ætli ekki að hætta sókn sinni fyrr en öllum göngum, sem Hamas noti til að komast óséðir til Ísrael, hafi verið eytt.
„Það er önnur nálgun á því sem Hamas hefur í frammi gegn ísraelsku þjóðinni og því sem Ísrael gerir til að verja landið sitt, en að varpa sprengjum á aðstöðu Sameinuðu þjóðanna sem hýsir saklausa borgara er gjörsamlega óásættanlegt og algjörlega óverjandi,“ sagði Josh Earnest, talsmaður hjá Hvíta húsinu, við blaðamenn.
Frá þessu greinir BBC, fréttastofa breska ríkisútvarpsins.