Ótti um að banvæn veira breiðist víðar

Heilbrigðisstarfsfólk á ELWA sjúkrahúsinu í Monróvíu, höfuðborg Líberíu, klæðist hlífðarbúnaði …
Heilbrigðisstarfsfólk á ELWA sjúkrahúsinu í Monróvíu, höfuðborg Líberíu, klæðist hlífðarbúnaði frá toppi til táar þegar það sinnir sjúklingum með hina banvænu ebólaveiru. AFP

Veirusjúkdómar virða engin landamæri. Í alþjóðavæddum heimi nútímans þarf ekki nema eina flugferð til að bera bráðsmitandi veiru heimshorna á milli. Ebóla, sem nú hefur orðið 729 að bana, hefur ætíð verið bundin við afskekkt svæði Afríku en nú er talinn raunverulegur möguleiki á að veiran gæti borist til annarra heimshluta.

Þar með er þó ekki sagt að ebólufaraldur myndi breiðast út í viðkomandi landi. Hægt er að rjúfa smitleiðir með ýmsum varnaðaraðgerðum, sem virðast hafa brugðist í þeim löndum þar sem faraldurinn geisar nú, því skilning á sóttvarnarráðstöfunum skorti.

Almenningi á Vesturlöndum stafar því lítil hætta af sjúkdómnum, að óbreyttu. Þeir sem orðið hafa fyrir smiti eru fyrst og fremst fólk sem annast sjúklinga. Fjölskyldumeðlimir og heilbrigðisstarfsmenn eru því í mestri hættu. Í dag var einmitt jarðsettur eini veirufræðingur Síerra Leóne, læknir sem sagður er þjóðhetja enda hætti hann lífi sínu til að sporna við útbreiðslu veirunnar.

Varð fárveikur á leið til Bandaríkjanna

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) og Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) vinna að samræmdum aðgerðum til að hefta útbreiðslu ebólu. Til greina kemur m.a. skimun allra farþega sem koma frá svæðum þar sem faraldurinn geisar, samkvæmt tilkynningu frá ICAO í gær.

Fyrr í þessum mánuði fárveiktist bandarísk-líberíski embættismaðurinn Patrick Sawyer um borð í flugvél á leið frá Afríku til Bandaríkjanna. Hann er sagður hafa bæði kastað upp og fengið niðurgang stuttu eftir millilendingu í Nígeríu. Þar var hann lagður inn á sjúkrahús í einangrun, þar sem hann lést 5 dögum síðar. Sawyer var á leið heim til konu sinnar og barna í Minnesota, en hafði verið að hlúa að veikri systur sinni í Líberíu, án þess að gera sér grein fyrir að hún væri með ebólu.

Sawyer var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést úr ebólu-faraldrinum, sem er sá versti í sögunni og við dauða hans fóru viðvörunarbjöllur af stað um allan heim. Áður en hann lenti í Nígeríu hafði hann stoppað í Tógó og Ghana.

Haft hefur verið uppi á 59 manneskjum sem Sawyer hafði samskipti við á ferðalaginu, þ.á.m. eru 15 flugvallarstarfsmenn og 44 heilbrigðisstarfsmenn á sjúkrahúsinu. „Fólk tók þetta í raun ekki alvarlega fyrr en Patrick dó. Nú eru allir tilbúnir að grípa til aðgerða,“ hefur CNN eftir eiginkonu hans, Decontee Sawyer.

Margfalt fleiri veikst en í fyrri faröldrum

Ebólu-faraldurinn hófst í Gíneu í febrúar en geisar nú einnig í Líberíu og Síerra Leóne, þar sem stjórnvöld hafa nú lýst yfir neyðarástandi. Samkvæmt nýjustu tölum hafa um 1.300 manns sýkst, sem er margfalt meira en í fyrri faröldrum. 729 eru dánir, þar af 57 á síðustu fjórum dögum.

Samtökin Læknar án landamæra segja að faraldurinn eigi aðeins eftir að versna, enda vanti alla yfirsýn um útbreiðslu hans. Frá þessum löndum eru nokkrar flugferðir í hverri viku til Evrópulandanna Belgíu, Frakklands og Bretlands, auk Afríkulanda eins og Senegal, Ghana og Fílabeinsstrandar.

Engu að síður hafa Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in og Sótt­varna­stofn­un Evr­ópu­sam­bands­ins ekki mælt gegn ferðalög­um til Vestur-Afríkulanda, enda er smit­hætta ferðamanna talin hverf­andi lít­il, að sögn Landlæknisembættisins.

Berst með beinni snertingu við líkamsvessa

Ebóla-veiran berst ekki manna á milli með andrúmsloftinu, heldur aðeins með snertismiti, þ.e. beinni snertingu við blóð og aðra líkamsvessa fólks sem hefur veikst eða látist. Einnig er hægt að smitast af hlutum sem hafa mengast með líkamsvessum sjúklinga, s.s. sprautunálum.

Þótt sá möguleiki sé til staðar að einstaklingur sem smitast af ebólu í Vestur-Afríku stígi um borð í flugvél til annars heimshluta, eru þess vegna afar litlar líkur á því að veira smitist til annarra farþega á meðan fluginu stendur. Þetta segir Stephen Monroe, aðstoðarframkvæmdastjóri bandarískra smitsjúkdómavarna (CDC). 

Ebóla er ekki smitandi áður en einkenni koma fram, og þegar þau gera það eru þau jafnan mjög alvarleg, s.s hiti og verkir, uppköst, niðurgangur, blæðingar og útbrot. IATA, sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem ítrekað var að almennir ferðamenn þurfi ekki að óttast. „Það er afar ólíklegt að manneskja með jafnalvarleg einkenni og af ebóla-veiru myndi treysta sér til að ferðast milli landa,“ segja samtökin.

Ef svo ólíklega vildi til að einstaklingur sýktur af ebólu-veirunni myndi vísvitandi ferðast með flugvél, þá fullyrðir WHO að öðrum farþegum stafi lítil hætta af því. Engu að síður ráðleggur WHO heilbrigðisyfirvöldum að rannsaka til hlítar alla þá sem flugfarþegi með ebóla-veiki hefur komist í snertingu við.

Heilbrigðisstarfsfólk leggur líf sitt í hættu

Eftir stendur því að það er fyrst og fremst heilbrigðisstarfsfólkið, sem hlúir að hinum sjúku, sem er í hættu af völdum ebólaveirunnar. Eftir að Patrick Sawyer dó hafa tveir Bandaríkjamenn til viðbótar veikst. Það eru læknirinn Kent Bradley og hjúkrunarfræðingurinn Nancy Writebol, sem smituðust við læknisstörf í Líberíu og liggja nú milli heims og helju.

Læknirinn Umar Khan, 43 ára, var jarðsettur í Síerra Leóne í dag. Hann er nú þjóðhetja í landinu enda er hann sagður hafa bjargað lífi yfir 100 manns áður en hann smitaðist af veirunni sjálfur og dó. Khan var eini menntaði veirufræðingur Síerra Leóne og leiddi baráttuna gegn útbreiðslu sjúkdómsins.

Samtökin læknar án landamæra lýsa Khan sem sérstaklega hugrökkum lækni sem hafi látið sig sjúklinga sína miklu varða og skilað mikilvægu starfi. Heilbrigðisráðherra Síerra Leóne segir að Khan hafi lýst ebólu stríð á hendur og helgað sig því að bjarga lífi landa sinna og annarra frá veirunni banvænu.

Hin banvæna ebóla er sú veira sem er hvað hættulegust …
Hin banvæna ebóla er sú veira sem er hvað hættulegust manninum. AFP
Bandaríski læknirinn Kent Brantly liggur nú milli heims og helju …
Bandaríski læknirinn Kent Brantly liggur nú milli heims og helju í Líberíu og sömu sögu má segja um landa hans, hjúkrunarfræðinginn Nancy Writebol. Þau eru meðal þeirra 1.200 sem sýkst hafa af ebólaveirunni. AFP
Stígvél, hanskar og annar hlífðarbúnaðar heilbrigðisstarfsfólks ELWA sjúkrahússins í Monróvíu, …
Stígvél, hanskar og annar hlífðarbúnaðar heilbrigðisstarfsfólks ELWA sjúkrahússins í Monróvíu, höfuðborg Líberíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert