Ebólu-faraldurinn að verða stjórnlaus

Hjúkrunarfólk sem sinnir þeim sem sýkst hafa af ebólu verður …
Hjúkrunarfólk sem sinnir þeim sem sýkst hafa af ebólu verður að vera vel varið. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að ebólu-faraldurinn sé að verða stjórnlaus í þeim löndum Vestur-Afríku þar sem hann geisar. Stofnunin segir hættu á að sjúkdómurinn breiðist út til annarra landa með „hörmulegu“ mannfalli og alvarlegum efnahagslegum afleiðingum.

Forstjóri WHO, Margaret Chan, sagði við leiðtoga Gíneu, Síerra Leóne og Líberíu að viðbúnaður og forvarnir við faraldrinum hefðu verið „algjörlega ófullnægjandi“ og að faraldurinn breiðist nú hraðar út en ráðið verður við.

Leiðtogar landanna þriggja, sem hafa orðið hvað verst úti í faraldrinum nú, funda nú í Conakry í Gíneu. Fundurinn er haldinn til að skipuleggja störf mörg hundruð hjúkrunarfólks sem bæst hafa í hóp þeirra sem fyrir eru í löndunum þremur. 

„Ef ástandið heldur áfram að versna verða afleiðingarnar gríðarlegar hvað varðar mannfall og einnig félagslega og efnahagslega. Þá verður einnig aukin hætta á að sjúkdómurinn breiðist út til annarra landa,“ sagði Chan á leiðtogafundinum.

Hún segir að faraldurinn nú sé sá alversti sem orðið hefur á þeim fjórum áratugum sem liðnir eru frá því að sjúkdómurinn uppgötvaðist.

Hún segir að fólk á afskekktum svæðum sé að smitast og að í mörgum tilvikum sé erfitt að veita því hjúkrun. Þá sé sjúkdómurinn einnig að breiðast út í borgum.

WHO segir að í það minnsta 729 hafi látist úr ebólu frá því að faraldurinn hófst í febrúar. Yfir 1.300 hafa sýkst. 

Ekkert lyf er til við ebólu, ekkert bóluefni heldur. Einkennin eru m.a. hár hiti, höfuðverkur og beinverkir. Miklar og óstöðvandi blæðingar eru meðal alvarlegra einkenna hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert