Aflífaður með fimmtán lyfjaskömmtum

Aftökubekkur í San Quentin fangelsinu í Kaliforníu.
Aftökubekkur í San Quentin fangelsinu í Kaliforníu. Ljósmynd/Wikipedia

Fimmtán skammtar af banvænum lyfjakokteil voru notaðir við aftöku morðingjans Josephs Woods í Arizona þann 23. júlí, en aftakan tók um tvær klukkustundir. 

Wood var úrskurðaður látinn 117 mínútum eftir að aftakan hófst, en hann engdist um og stundi margoft meðan á henni stóð. Um er að ræða lengsta dauðastríð í manna minnum í aftöku. Lögfræðingur hans sendi í gær frá sér 331 síðu af gögnum frá fangelsismálayfirvöldum í Arizona, en þar kom m.a. fram fjöldi lyfjaskammta sem notaðir voru.

Brot á lögum fylkisins?

Hann benti á að um væri að ræða brot á lögum fylkisins, enda kæmi skýrt fram í reglum um aftökur að aðeins ætti að nota 50 milligrömm af róandi lyfinu midazolam og 50 milligrömm af verkjalyfinu hydromorphone. Hann ítrekaði jafnframt nauðsyn þess að fram færi sjálfstæð rannsókn á aftökunni án aðkomu yfirvalda.

Aftaka Woods er sú þriðja í ár sem tekur mun lengri tíma en „eðlilegt“ þykir, en yfirvöld hafa þurft að prófa sig áfram með ýmsar gerðir banvænna lyfja eftir að evrópsk lyfjafyrirtæki hafa neitað að afhenda lyf sem nota á í aftökur.

Grimmileg og óvenjuleg refsing

Andstæðingar dauðarefsinga í Bandaríkjunum hafa bent á að aftaka sem taki eins langan tíma og í tilfelli Woods sé ekkert annað en pynting og brjóti því gegn banni við grimmilegum og óvenjulegum refsingum. Átján fylki Bandaríkjanna hafa bannað dauðarefsingar, en hin leyfa þær enn og er talið að nokkur meirihluti landsmanna sé enn fylgjandi þeim.

Fangar í ýmsum fylkjum hafa áfrýjað dauðadómum sínum á grundvelli framkvæmdar aftakanna, en þeim hefur öllum verið hafnað. Talið er að flest málin muni hins vegar lenda á borði hæstaréttar Bandaríkjanna.

Talið er að mörg mál muni lenda á borði hæstaréttar …
Talið er að mörg mál muni lenda á borði hæstaréttar Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert