Fjórir áratugir eru síðan ebólu-veiran greindist fyrst en litlar framfarir hafa orðið á meðferðarúrræðum. Engin opinber leyfi hafa verið gefin fyrir lyfjum eða bóluefni gegn veirunni.
Unnið er að þróun einhverra lyfja en fullnægjandi tilraunir á mönnum hafa þó ekki farið fram. Bandaríska hjúkrunarkonan Nancy Writbole, fékk einn skammt af tilraunalyfi í vikunni, en mál hennar vakti athygli eftir að læknirinn Kent Brantly, krafðist þess að hún fengi skammtinn, frekar en hann sjálfur.
Án sértækra meðferðarúrræða einblína læknar og hjúkrunarfræðingar nú á að slá á einnkenni veirunnar sem felast í hita, höfuðverk, uppköstum, niðurgangi og blæðingum. Halda þarf hitanum niðri og gefa sjúklingum nóg af vatni að drekka.
Nú hafa yfir 1.300 manns í Líberíu, Gíneu og Sierra Leone smitast af veitunni og yfir sjö hundruð þeirra látist. <span>Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sagt að faraldurinn sé að verða stjórnlaus í fyrrgreindum löndum þar sem hann geisar og segir stofnunin hættu á að sjúkdómurinn breiðist út til annarra landa með „hörmulegu“ mannfalli og alvarlegum efnahagslegum afleiðingum.</span>
<h3>Af hverju er ekki til lækning?</h3>Í fyrsta lagi þykir erfitt að vinna með ebólu-veiruna. Veiran lifir ekki vel í ræktunardiskum og tiltölulegar fáar tilraunastofur eru nógu vel einangraðar og öruggar fyrir ferlið.
Í öðru lagi er það svo að ebólu-veiran er sjaldgæf þó hún sé banvæn og ekki hafa því mörg tækifæri gefist til þess að prófa ný lyf. Þó svo að faraldurinn sem nú geisar sé sá stærsti sem sögur fara af teljast fáir smitaðir af veirunni þegar litið er til annarra sjúkdóma, s.s. malaríu.Stór hluti fjármagnsins sem varið er í rannsóknir á veirunni kemur frá löndum sem óttast að ebólu-veiran verði notuð í hryðjuverkaskyni. „Það er ekki hagkvæmt fyrir fyrirtæki að rannsaka veiruna og öll hafa þau hluthafa og fjárfesta til þess að hugsa um,“ sagði Ben Neuman, veirufræðingur hjá háskólanum í Reading í Bretlandi í viðtali við <a href="http://www.kansascity.com/living/health-fitness/article890873.html" target="_blank">The Kansas City Star.</a>
<h3>Hvað er verið að þróa?</h3>Um tíu tilraunaverkefni með ebólu-lyf eða bóluefni eru nú í burðarliðnum og hafa nokkur þeirra verið fjármögnuð af bandarískum stjórnvöldum. Tilraunir með eitt lyfið sem bandaríski herinn hefur unnið að virðast lofa góðu á öpum. „Lyfið hefur verið prófað á dýrum við góðan árangur og því teljum við að það gæti virkað, en þó er ekki hægt að vita það með vissu þar til lyfið hefur verið prófað á mönnum,“ sagði Fred Hayden, smitsjúkdómafræðingur við háskólann í Virginíu. Þá sagði hann að taka þyrfti einnig tillit til þess að óljóst er hversu stóran skammt menn myndu þurfa miðað við dýrin.
Kanadíska fyrirtækið, Tekmira, er með 140 milljón dala samning við bandarísk stjórnvöld um þróun á bóluefni. Tilraunir þeirra á mönnum voru hins vegar stöðvaðar af heilbrigðiseftirliti Bandaríkjanna af öryggisástæðum nýlega þar sem þróun þess þótti ekki nógu langt á veg komin.
<h3>Ætti að byrja að nota tilraunalyf?</h3>Umdeilt er meðal vísindamanna hvort það sé góð hugmynd að prófa tilraunalyf á mönnum áður en þau hafa hlotið formlegt leyfi. „Þessi faraldur er fordæmislaus og við þurfum að taka tillit til þess,“ sagði Peter Piot, annar þeirra er fyrst uppgötvaði ebólu-veiruna árið 1976. Þá mun Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ekki gefa mönnum tilraunalyf að svo stöddu að sögn talsmanns þeirra, Gregory Hartl.
Sumir sérfræðingar segja það vera ósiðlegt að nota tilraunalyf á mönnum þar sem aukaverkanir séu ekki ljósar og afleiðingarnar geta því verið alvarlegar. „Frá lagalegu sjónarhorni er ekkert þessara lyfja er tilbúið fyrir notkun á mönnum,“ sagði Dr. Heinz. Feldmann, stjórnandi hjá Bandarísku ofnæmis- og smitsjúkdómastofnuninni.
Hann sagði að mögulega væri hægt að bólusetja eða veita öllum lyf á svæðinu þar sem faraldurinn geisar nú, en ef einhver tilraunalyf verða gefin, að þá mun heilbrigðisstarfsfólk hafa forgang.
Ekki hefur verið gefið upp hvaða tilraunalyf Nancy Writbole fékk.