Læknirinn með ebólu á batavegi

Kent og Amber Brantley ásamt börnum sínum.
Kent og Amber Brantley ásamt börnum sínum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Bandaríski læknirinn sem sýktur er af ebólu veirunni virðist vera á batavegi að sögn heilbrigðisyfirvalda. Flogið var með hann til Bandaríkjanna í gær.

Brantly og hjúkr­un­ar­kon­un­an Nancy Writ­bol smituðust bæði af veirunni en mál þeirra vakti athygli eftir að hann krafðist þess að Writebol fengi eina skammtinn sem til var af tilraunalyfi, frekar en hann sjálfur. Brantly liggur nú á Emory háskólasjúkrahúsinu í Atlanta.

„Hann virðist vera á batavegi. Það er mjög mikilvægt og við vonum að honum haldi áfram að batna,“ sagði Tom Frieden, forstöðumaður smitsjúkdómavarna í Atlanta. „Ebóla er samt alveg skelfilegur sjúkdómur því hann er svo ótrúlega banvænn,“ sagði hann í viðtali hjá CBS sjónvarpsstöðinni.

Yfir sjö hundruð manns hafa látist í Vestur-Afríku af völdum ebólunnar. Rúmlega tveir þriðju hluti allra þeirra sem smitast hafa af veirunni frá því hún var fyrst greind á árinu 1976 hafa látist.

Hefur ekki áhrif á Afríku-ráðstefnu

Bandarísk stjórnvöld fullyrtu í gær að faraldurinn myndi ekki hafa áhrif á þriggja sólarhringa ráðstefnu um samband Bandaríkjanna og Afríku sem hefst í Washington á miðvikudag. Von er á um fimmtíu leiðtogum frá Afríku ásamt fylgdarliði þeirra. „Ráðstefnan verður undir ströngu eftirliti,“ sagði Valerie Jarret, pólitískur ráðgjafi bandaríkjaforseta, í viðtali á CBS. „Við erum viss um að ná góðum árangri á ráðstefnunni og að sjálfsögðu munum við grípa til allra nauðsynlegra varúðarráðstafana.“

Frieden lagði áherslu á að þrátt fyrir hraða útbreiðslu veirunnar í Vestur-Afríku væri hægt að stöðva hana. „Staðreyndin er að við getum stöðvað hana. Við getum stöðvað útbreiðslu veirunnar á sjúkrahúsum og við getum stöðvað hana í Afríku,“ sagði hann. „Við höfum stöðvað fyrri faralda og ég er viss um að við getum stöðvað þennan,“ sagði hann.

Biður fólk um að biðja fyrir Brantly

Eiginkona Brantley, Amber, bað í dag fólk um að biðja fyrir bata eiginmanns hennar og öllum öðrum sem sýktir eru af veirunni í Líberíu. „Ég talaði við hann og hann er ánægður með að vera aftur í Bandaríkjunum. Ég þakka guði fyrir öruggan flutning hans og fyrir að gefa honum styrk til þess að ganga inn á spítalann,“ sagði í yfirlýsingu frá henni.

Von er á að Writebol verði flutt til Bandaríkjanna með sama hætti á næstu dögum.

Að sögn Frieden heimsóttu eiginkona Brantley og börnin hans tvö, hann í Líberíu, en þau eru ekki talin vera í hættu. „Veiran smitast ekki mjög auðveldlega og þeir sem ekki eru veikir smita ekki,“ sagði hann og bætti við að talið væri að hann hefði ekki verið orðinn veikur þegar þau voru í heimsókn.

Ólíklegt að veiran verði að faraldri í Bandaríkjunum

Hann viðurkenndi að möguleiki væri á að ebólu-veiran myndi greinast í Bandaríkjunum en sagði yfirvöld vera viss um að hún yrði ekki að faraldri. „Við vitum að það er möguleiki á því að einhver sýktur komi til landsins,“ sagði hann. „Ef hann fer til læknis sem fattar ekki að hann sé smitaður af ebólu gætu tilvikin orðið enn fleiri.“

„En ég tel ekki líklegt að sjá ebólu faraldur í Bandaríkjunum vegna þess að hún smitast fyrst og fremst með tvennum hætti í Afríku. Í fyrsta lagi á spítölum sem ekki eru nægilega sótthreinsaðir og einangraðir. Og í öðru lagi við útfarir þegar fólk er að snerta lík þeirra sem dáið hafa úr ebólu. Því tel ég að víðtæk útbreiðsla sé ekki líkleg í Bandaríkjunum.“

Forstöðumaður smitsjúkdómavarna í Bandaríkjunum telur ólíklegt að veiran verði að …
Forstöðumaður smitsjúkdómavarna í Bandaríkjunum telur ólíklegt að veiran verði að faraldri þar. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert