Forsetar Þýskalands og Fraklands minnast þess í dag að hundrað ár eru liðin síðan Þýskaland sagði Frakklandi stríð á hendur hinn söguríka dag 3. ágúst 1914. Forsetarnir Francois Hollande og Joachim Gauck voru viðstaddir sameiginlega minningarathöfn í Elsass héraði til heiðurs hermanna sem féllu í heimsstyrjöldinni fyrri.
Þar hófu þeir formlega byggingu nýs minnisvarða í Vieil Armand kirkjugarði. Vieil Armand, eða Hartmannswillerkopf á þýsku, er tindur í Elsass héraði sem var heiftarlega barist um í fyrri heimsstyrjöld, og kostuðu átökin um 30 þúsund menn lífið. Um 12 þúsund óþekktir hermenn eru grafnir í kirkjugarðinum sem þar er nú.
Á mánudaginn verða sambærilegir viðburðir haldnir í Belgíu til að minnast stríðsyfirlýsingar Bretlands Þýskalandi á hendur. Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, tekur þátt í athöfn til minningar um daginn sem Bretland fór í stríð.
Hollande og Gauck hafa vottað þeirri fórn sem hermennirnir í Vieil Armand færðu og fagnað mikilvægi þess samstarfs sem Frakkland og Þýskaland njóta í dag. Minnisvarðinn, sem þeir lögðu drög að í dag, mun einnig þjóna sem sýningarrými um styrjöldina, sem opnar 2017.
Fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, greinir frá þessu.