Kvikmyndin Saving Private Ryan, eða Björgun óbreytts Ryans, varð gríðarlega vinsæl en þar var fjallað um stríðshetju í síðari heimsstyrjöldinni sem var bjargað var úr fremstu víglínu eftir að hafa misst þrjá bræður sína í stríðinu.
En söguþráður myndarinnar fellur í skuggann af sannri sögu um hinn óbreytta hermann Smith, sem var kallaður heim úr skotgröfunum fyrri heimsstyrjaldarinnar samkvæmt skipun konungs eftir að fimm bræður hans höfðu fallið.
Á minningarsteini í smábænum Barnard Castle á Norður-Englandi standa nöfn fimm bræðra sem allir bera eftirnafnið Smith: Robert, George Henry, Frederick, John William og Alfred.
Bræðurnir féllu allir á innan við tveimur árum í bardögum í fyrri heimsstyrjöldinni. Þessi harmleikur á sér vart hliðstæðu. Hins vegar er það björgun yngsta bróðurins, Wilfreds, sem gerir söguna ótrúlega.
Barnabarn Wilfreds, Amanda Nelson, segist ekki hafa áttað sig almennilega á þessum fjölskylduharmleik fyrr en hún horfði á kvikmyndina Saving Private Ryan.
„Um leið og ég horfði á kvikmyndina hugsaði ég, þetta er einmitt það sem kom fyrir afa minn,“ segir Nelson sem er 47 ára og býr enn í smábænum Barnard Castle.
„Myndin hefði átt að heita Saving Private Smith, því hann afi minn var sendur heim úr stríðinu eftir að hafa misst fimm bræður sína. Þetta var mjög sorgleg mynd en ég fór að hugsa hvort hún væri byggð á sögu fjölskyldu minnar.“
Þegar Wilfred fór á vígstöðvarnar árið 1917 var hann aðeins nítján ára gamall. Þá var fjölskylda hans þegar í sárum því að bræður hans Robert, 21 árs, og George Henry, 26 ára, höfðu þegar fallið í stríðinu.
Sá þriðji, Frederick lést svo í orrustunni um Ypres árið 1917 og elsti bróðirinn, John William lést sama ár. Sá fimmti, Alfred, lést svo í júlí árið 1018, aðeins fjórum mánuðum áður en stríðinu lauk.
Amanda Nelson hefur skoðað skjöl sem tengjast fjölskyldunni hundrað ár aftur í tímann. Hún hefur farið í gegnum upplýsingarnar ásamt móður sinni, Dianne, dóttur Wilfreda. Amanda bendir á mynd af fjórum Smith-bræðrunum í herbúningum, rétt áður en þeir fóru í stríðið.
„Langamma mín sagði alltaf: „Ekki eignast syni því að þeir verða aðeins fallbyssufóður,““ hefur Amanda eftir langömmu sinni.
125 ungir menn frá smábænum Barnard Castle létust í fyrri heimsstyrjöldinni. Allir í bænum þekktu harmsögu Margaret Smith, móður bæðranna fimm sem létust. Hún hafði einnig misst eiginmanninn. Wilfred var því sá eini sem var eftir.
Fyrri heimsstyrjöldin stóð í fjögur ár og í henni féllu 10 milljónir manna og 20 milljónir særðust á vígvellinum.
Ekki var óalgengt að breskar fjölskyldur misstu fleiri en einn son.
Er líða tók að lokum stríðsins ákvað kona prests eins að skrifa Maríu drottningu, eiginkonu Georgs Englandskonungs, og segja henni frá sögu Smith-fjölskyldunnar. Bað hún um að Wilfred yrði sóttur í skotgrafirnar og komið öruggum heim til móður sinnar.
Prestsfrúin fékk staðfestingu á því að bréfið hefði borist drottningunni. Stuttu síðar var Wilfred sóttur svo skrifin báru árangur. Wilfred var á lífi en hann glímdi lengi við eftirköst þess að hafa lent í sinnepsgasárás.
Hann bjó áfram í Barnard Castle, giftist og vann sem sótari. Hann lést árið 1972, 74 ára að aldri.
Wilfred heimsótti reglulega minningarsteininn um bræður sína. Nú heldur dóttir hans þeirri hefð á lofti.
„Pabbi talaði aldrei um stríðið. Hann vildi ekki minnast á neitt því tengdu,“ segir dóttirin sem nú er sjötug. „Hann var góður faðir.“
Amanda er sannfærð um að ef afi hennar hefði ekki verið sóttur í skotgrafirnar hefði hann fallið.
„Þá værum við ekki hér,“ segir hún.