Kostnaður við Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár var um þrisvar sinnum meiri en áætlað var. Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Kostnaður við keppnina var 112 milljónir danskra króna, um 2,3 milljarðar íslenskra króna, en upphaflega var ráðgert að kostnaðurinn yrði 34,6 milljónir.
Að sögn Lars Bernhard Jörgensen, forstjóra Wonderful Copenhagen sem sá um skipulagningu keppninnar, má rekja um 90% af hinum aukna kostnaði til umbóta og breytinga á tónleikahöllinni B&W Hallen í Kaupmannahöfn.
Til dæmis voru þrír stöplar sem stóðu á sviðinu teknir niður fyrir keppnina til þess að koma fyrir gríðarstórum sjónvarpsskjá, en að keppni lokinni voru þeir reistir að nýju. Þá var einnig reist tjald fyrir utan tónleikahöllina til þess að hýsa áhorfendur, en kostnaður við þetta var mun meiri en áætlað var.
Lars Bernhard Jörgensen segir einnig að fyrirtækinu hafi verið gefinn skammur undirbúningstími fyrir keppnina og að það hafi kostað sitt þegar uppi var staðið.
Söngvakeppnin var í ár rekin með 6,6 milljarða halla í dönskum krónum talið. Forsvarsmenn Eurovision, Kaupmannahafnar og Wonderful Copenhagen vinna nú að því að finna leiðir til þess að bæta fyrir tapið.