Segja upp samningi við Rússa

Vladimír Pútín forseti Rússlands
Vladimír Pútín forseti Rússlands AFP

Þjóðverjar hafa sagt upp stórum samningi við rússneska herinn vegna ástandsins í Úkraínu. Samningurinn hljóðaði upp á uppbyggingu og notkun á æfingaraðstöðu fyrir herinn í Þýskalandi.

Varakanslari og efnahagsráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, sagðist hafa afturkallað leyfi sitt fyrir verkefninu en því hafði áður verið frestað í mars sl. vegna spennunnar á Krímskaganum.

Þetta staðfesti hann í viðtali við þýska dagblaðið Sueddeutsche Zeitung og benti á að samningurinn hefði verið hundrað milljóna evra virði. „Við teljum þetta óverjandi við núverandi aðstæður,“ sagði talskona ráðuneytisins aðspurð um efnið.

Segja Berlín vera undir bandarískum þrýstingi

Rússar hafa áður sagt seinagang Þjóðverja með verkefnið vera „óuppbyggjandi“ og sakað Berlín um að vera undir þrýstingi frá Bandaríkjunum. Verktakarnir sem sjá um byggingu æfingasvæðisins sögðu í mars að þeir myndu efna sinn hluta samningsins og ljúka verkinu en í þýskum fjölmiðlum hefur verið greint frá því að æfingarpláss verði fyrir rúmlega þrjátíu þúsund hermenn á ári á svæðinu.

Æfingarsvæðið átti að byggja á Volga svæðinu og opna í lok ársins. Ekki náðist í verktakafyrirtækið í kjölfar fréttanna en talskona ráðuneytisins sagði að fyrirtækið ætti rétt á bótum vegna samningsbrotsins.

Með því að segja upp samningnum hafa Þjóðverjar gengið lengra en viðskiptaþvinganirnar gegn Rússlandi sem þeir samþykktu á Evrópuþinginu en þvinganirnar takmarka útflutning vopna til Rússlands. Þær taka þó ekki til þeirra samninga sem þegar eru fyrir hendi, líkt og samnings Frakklands og Rússlands um afhendingu tveggja herskipa. Frakkar hafa verið gagnrýndir töluvert fyrir að standa við samkomulagið

Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands.
Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert