Er ZMapp svarið við ebóla-veirunni?

Bandaríkjamennirnir Kent Brantly og Nancy Writebol eru fyrst manna til …
Bandaríkjamennirnir Kent Brantly og Nancy Writebol eru fyrst manna til að fá skammt af tilraunalyfinu ZMapp, gegn ebólu.

Á fimmtudaginn hélt dr. Kent Brantly að hann myndi að deyja. Honum hrakaði ört eftir 9 daga veikindi og hringdi í eiginkonu sína til að kveðja. Það reyndist sem betur fer ekki verða hans síðasta. Brantly virðist nú vera á batavegi, eftir að hafa verið gefið nýtt lyf í tilraunaskyni. Niðurstaðan vekur vonir um lækningu við ebólu.

Eins og fram kom í umfjöllun mbl.is um helgina hafa litlar framfarir orðið í meðferðarúrræðum við ebólu þótt fjórir áratugir séu liðnir síðan veiran greindist fyrst. Um 10 tilraunalyf eru í burðarliðnum, en fullnægjandi tilraunir hafa ekki verið gerðar á mönnum. Lyfjaþróunin hefur m.a. reynst erfið vegna þess að ebóla-faraldrar koma tilviljanakennt upp og flestir sem sýkjast deyja, eða allt að 90% af hættulegasta tilbrigðinu, sem þýðir að ekki hefur tekist að einangra og rækta mótefni úr blóðvökva fólks sem læknast af veirunni.

Þróað með tilraunum á músum og öpum

Bandaríski læknirinn Brantly og landi hans, hjúkrunarfræðingurinn Nancy Writebol, fengu fyrir helgi bæði skammt af tilraunalyfinu ZMapp, sem er í þróun hjá bandaríska líftæknifyrirtækinu Mapp Biopharmaceutical Inc. í San Diego. ZMapp var þróað með tilraunum á músum, sem sýktar voru af ebóla-veirunni í smáskömmtum og mótefnið sem myndaðist í blóði þeirra svo einangrað.

Þetta er í fyrsta sinn sem lyfið er gefið mönnum, en tilraunir á öpum höfðu gefið góða von um virkni þess. Fjórir apar læknuðust með hjálp lyfjameðferðarinnar, eftir að hafa verið sýktir af ebólu í 24 klukkustundir. Tveir af fjórum öpum sem fengu lyfið eftir 48 klukkustundir læknuðust, en tveir dóu. Níundi apinn fékk enga lyfjameðferð, og dó á 9 dögum. Brantly hafði verið veikur í 9 daga þegar hann fékk lyfið.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ekki sé hægt að hefja notkun á óþekktum lyfjum í miðjum faraldri, bæði af vísindalegum og siðferðislegum ástæðum. Lyfjagjöfin til Brantly og Writebol er því sérstök og farin eftir óvenjulegum leiðum. Þau gerðu sér, að sögn CNN, fulla grein fyrir áhættunni sem því fylgir að gangast undir nýja, lítt þekkta lyfjameðferð og gáfu upplýst samþykki sitt.

Hætti við að gefa frá sér fyrsta skammtinn

Lyfjaglösin eru geymd við hitastig undir frostmarki og þannig komu þau til Líberíu að morgni fimmtudagsins 31. júlí, þar sem Writebol og Brantly lágu í einangrun. Læknum var ráðlagt að láta lyfið þiðna við stofuhita áður en þeim yrði gefið það og var búist við að það tæki um 10 klukkustundir. Brantly, sem er 33 ára, óskaði upphaflega eftir því að Writebol fengi fyrsta skammtinn vegna þess að hún er eldri og hann líkamlega hraustari.

Á meðan þau biðu þess að lyfið þiðnaði hrakaði Brantly hinsvegar mjög skyndilega. CNN hefur eftir heimildarmanni að hann hafi átt erfitt með andardrátt og talið sig við dauðans dyr. Þá skipti hann um skoðun og bað um að fá fyrri skammtinn, á undan hjúkrunarfræðingnum. Lyfið fékk hann með dreypi gegnum æðalegg og innan við klukkustund síðar varð líðan hans mun betri. Öndunarvegurinn opnaðist og útbrot á búknum dofnuðu. Einn af læknunum sem sinnti honum lýsti árangrinum sem kraftaverki, að sögn CNN.

Morguninn eftir gat hann farið á fætur og í sturtu án aðstoðar, áður en hann var fluttur með sjúkraflugi til Bandaríkjanna þar sem hann liggur nú á Emory háskólasjúkrahúsinu í Atlanta í Georgíu. Síðar sama dag fékk Writebol einnig skammt af ZMapp. Líkami hennar brást ekki eins vel við lyfinu, en á sunnudag fékk hún annan skammt og við það varð líðan hennar nógu stöðug til að unnt væri að flytja hana einnig til Bandaríkjanna. Búist er við að lent verði með hana í Atlanta síðar í dag. 

Lyfjaþróunin fékk aukið fjármagn um helgina

Brantly og Writebol eru þar með fyrstu ebóla-sjúklingarnir í sögunni sem fá læknismeðferð utan Afríku, svo vitað sé til. Þau liggja á sérútbúinni einangrunardeild þar sem höfuðáhersla verður lögð á „styðjandi meðferð,“ þ.e. að draga úr alvarlegustu einkennum blæðandi hitasóttar sem ebólan veldur og halda þeim á lífi nógu lengi til að líkaminn geti unnið bug á sýkingunni.

Bandarísk stjórnvöld hafa að fjármagnað nokkur af þeim tilraunaverkefnum með ebólulyf sem unnið hefur verið að síðustu ári, þar á meðal ZMapp. Að sögn CNN ákvað stofnunin Defense Threat Reduction Agency, sem heyrir undir Bandaríkjaher, nú um helgina að veita aukið fjármagn til lyfjaþróunar MAPP Biopharmaceutical, vegna „niðurstaðna sem lofa góðu“.

Hin banvæna ebóla er sú veira sem er hvað hættulegust …
Hin banvæna ebóla er sú veira sem er hvað hættulegust manninum. AFP
Emory háskólasjúkrahúsið í Atlanta í Georgíu er með sérútbúna einangrunardeild …
Emory háskólasjúkrahúsið í Atlanta í Georgíu er með sérútbúna einangrunardeild þar sem þau Brantly og Writebol fá meðferð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert