Eyðileggingin kemur í ljós

„Er þetta virkilega bærinn minn?“ spurði Khayri Hasan al-Masri þegar hann hætti sér heim til sín í morgun eftir að 72 klukkustunda vopnahlé tók gildi á Gaza. Fjölskyldan átti heimili í bænum Beit Hanun, hvítmálað steinhús í litlum garði með pálma- og sítrónutrjám. Í dag blasti algjör eyðilegging við.

Þrjár vikur eru liðnar síðan Khayri flúði heimili sitt ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum, þegar Ísralesmenn tilkynntu að þeir myndu hefja landhernað á Gaza þann 17. júlí. Burðarvirki hússins stendur þar enn, en veggirnir eru gapandi tóm.

Heimilið notað sem herbúðir

Skothylki liggja eins og hráviði í herbergi 11 ára gamals sonar hans, Hasan. Í stofunni er sprengivarpa og bazooka á efri hæðinni.

Gatan er þakin gráu steypuryki, með förum eftir skriðdreka, og í vegkantinum liggja dauðir asnar. Á stofuvegginn sést að krotað hefur verið kort af svæðinu á hebresku, sem bendir til þess að ísraelskir hermenn hafi notað heimilið sem n.k. grunnbúðir eftir að fjölskyldan flýði. Nærliggjandi hús eru rústir einar.

Khayri sneri einn heim til að kanna aðstæður, svo fjölskyldunni er hlíft við því að sjá eyðilegginguna. „Hvað á ég að segja konunni minni og börnum? Ég vil ekki að þau sjái þetta. Þau tryllast. Hvernig get ég útskýrt þetta,“ segir hann við blaðamann Afp á staðnum.

„Hvað gerðum við honum, Netanyaju?“spurði hann og á þar við forsætisráðherra Ísrael. 

Yfir hálf milljón á flótta en geta hvergi farið

Alls hafa 267.970 Palestínumenn leitað skjóls í 90 skólum, þar sem Sameinuðu þjóðirnar aðstoða flóttafólk, að sögn OCHA, Samræmingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum. Þúsundir til viðbótar eru hýstir í skólum á vegum stjórnvalda auk þess sem 200.000 manns eru talin hafa fengið inni hjá vinum og vandamönnum.

Yfir hálf milljón Palestínumanna hefur því flúið heimili sín vegna hernaðar Ísraels á Gaza, en jafnvel þótt þau vildu geta þau ekki freistað gæfunnar og stofnað nýtt líf annars staðar, því þau hafa ekki ferðafrelsi út fyrir Palestínu.

Ekkjan Zakia Shaban Bakr Masri, 74 ára, nýtti líka tækifærið sem vopnahléið gaf í dag til að snúa aftur heim, en þar greip hún í tómt. „Um leið og ég kom aftur fór ég að gráta,“ segir hún við blaðamann Afp, sem kom að henni ráfandi í húsarústunum. „Allar eigur mínar voru hér, í herberginu mínu. Ég á ekkert eftir.“ 

Enginn sigurvegari í sjónmáli

Þegar fram líða stundir má búast við því að rústirnar verði endanlega jafnaðar við jörðu og fluttar burt, svo unnt verði að byggja upp aftur. Í millitíðinni er fólkið þó heimilislaust, og óvíst er hvenær af uppbyggingu verður því þótt vopnahlé gildi nú í 72 tíma er ekki útséð um hvort hernaður hefjist að nýju.

Fréttaritari BBC, Jonathan Marcus, segir að þótt vopnahléð sé brothætt gæti það leitt til lengra friðartímabils. En þótt hernaðinum ljúki kannski í bili, þá standi enginn uppi sem sigurvegari. 

Palestínumenn ganga yfir rústum fyrrum heimila sinna í Beit Hanun …
Palestínumenn ganga yfir rústum fyrrum heimila sinna í Beit Hanun á Gaza, þar sem 72 klukkustunda vopnahlé hófst í dag. AFP
Lítið parísarhjól stendur enn, þakið ryki, í Beit Hanun á …
Lítið parísarhjól stendur enn, þakið ryki, í Beit Hanun á Gaza þar sem heimamenn sneru sumir aftur í dag vegna vopnahlés. AFP
Mannslík dregið úr húsarústum í Beit Hanun á norðurhluta Gaza.
Mannslík dregið úr húsarústum í Beit Hanun á norðurhluta Gaza. AFP
Gríðarleg eyðilegging blasti við mörgum Palestínumönnum þegar þeir fóru til …
Gríðarleg eyðilegging blasti við mörgum Palestínumönnum þegar þeir fóru til að kanna ástand heimila sinna í dag eftir að vopnahlé komst á. AFP
Ísrelskir hermenn hvíla sig eftir að vopnahlé hófst á Gaza.
Ísrelskir hermenn hvíla sig eftir að vopnahlé hófst á Gaza. AFP
Palestínsk kona við rústirnar af heimili sínu í Beit Hanun …
Palestínsk kona við rústirnar af heimili sínu í Beit Hanun á Gaza. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert