Læknar í Sádi-Arabíu rannsaka nú sjúkling sem grunur er um að kunni að hafa smitast af ebóla-veirunni á ferð um Vestur-Afríku, þar sem faraldurinn geisar. Maðurinn var lagður inn á sjúkrahús í borginni Jeddah við Rauðahaf vegna einkenna um blæðandi hitasótt við heimkomuna frá Síerra Leóne.
Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, er sagður alvarlega veikur og einkennunum svipi til þeirra sem ebóla-veiran veldur. Meðal helstu einkenna ebólu eru hiti, uppköst og niðurgangur, miklir höfuð- og vöðvaverkir og á lokastigi útbrot og blæðingar.
Frá því veiran kom fyrst upp í Gíneu í febrúar hafa 887 manns látið lífið, samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) í gær. Faraldurinn hefur breiðst um Vestur-Afríkuríkin Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne og nú hefur smit einnig verið staðfest í Nígeríu. Óttast er að hann kunni að smitast víðar með fólki sem ferðast hefur til þessara landa.
Í New York var maður lagður inn á Mount Sinai-sjúkrahúsið í gær með háan hita og merki um maga- og þarmaveiki svipuð ebólu-einkennum, en hann hafði nýverið ferðast til Vestur-Afríku. Læknar mannsins segja hins vegar flest benda til þess að veikindin séu ekki af völdum ebólu. Engu að síður var maðurinn samstundis settur í einangrun, þar til niðurstöður rannsókna liggja fyrir.
Alþjóðabankinn hefur ákveðið að verja 200 milljónum Bandaríkjadala til baráttunnar gegn útbreiðslu ebólu.