Herflugvél frá Spáni verður send til Líberíu á næstu klukkustundum til þess að sækja spænskan trúboða sem smitaður er af ebólu.
Maðurinn heitir Miguel Pajares og er sjötíu og fimm ára gamall. Hann starfaði sem kaþólskur trúboði í Monróvíu, höfuðborg Líberíu. Spænski herinn hefur nú einangrað Airbus A310 herflugvél og verður hún send af stað innan skamms. „Hún gæti lagt af stað innan næstu klukkustundar,“ sagði talsmaður varnarmálaráðuneytis Spánar. „Um leið og hún er tilbúin.“
Vélin flýgur frá Torrejon herstöðinni við Madríd og var hún útbúin í nótt til fararinnar. Þá voru læknar á vegum hersins þjálfaðir sérstaklega fyrir verkið að sögn talsmannsins. Heilbrigðisráðherra Spánar sagði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvert maðurinn verði fluttur en heimildir herma að maðurinn verði lagður inn á La Paz sjúkrahúsið í Madríd. Forsvarsmenn sjúkrahússins hafa þó ekki staðfest það.
Pajares hefur verið í sóttkví á Sankti Jósefsspítalanum í Monróvíu ásamt fimm öðrum trúboðum en forstjóri sjúkrahússins lést úr ebólu á laugardag. Hann hefur unnið í Líberíu í fimm áratugi en síðastliðin sjö ár hefur hann starfað sem prestur á fyrrnefndum spítala.
Tvær nunnur sem einnig hafa verið greindar með ebólu voru í sóttkví á sama tíma og á sama spítala. Spænsk hjálparsamtök hafa beðið utanríkisráðuneytið á Spáni að fljúga þær einnig úr landi en þær eru frá Kongó og Gíneu.
Í viðtali í gær óskaði Pajares eftir því að vera fluttur til Spánar til meðferðar. „Ég er með hita. Ég hef enga matarlist. Ég gæti alfarið sleppt því að borða. Mér er illt í öllum liðum og þarf hjálp við að komast á milli staða,“ sagði hann við CNN á Spáni. „Við vonumst til þess að verða færð úr landi. Ef við yrðum flutt til Spánar værum við í góðum höndum og okkur gæti batnað. Með vilja guðs,“ sagði hann.