Minnast hryllingsins í Hiroshima

Tugþúsundir voru viðstaddar friðarsamkomur í Hiroshima í Japan í dag, í tilefni þess að 69 ár eru liðin síðan Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á borgina sem jafnaði hana nánast við jörðu. Andstaðan við kjarnorku jókst í Japan eftir flóðbylgjuna árið 2011 sem eyðilagði kælikerfi Fukushima kjarnorkuversins.

Bjöllum var hringt kl. 8:15 að staðartíma í Hiroshima í morgun, en það var á þeirri mínútu sem sprengjunni var varpað á borgina þann 6. ágúst 1945 og breyttu henni í allsherjar eldhaf. Fyrir árslok 1945 höfðu um 140.000 borgarbúar dáið vegna þessa.

Aldraðir eftirlifendur, ættingjar og stjórnmálamenn, þar á meðal Shinzo Abe forsætisráðherra Japans og Caroline Kennedy sendiherra Bandaríkjanna, tóku þátt í mínútu þögn í minningu hinna látnu. Að því loknu voru blómkransar lagðir við friðarminnisvarðann í miðborg Hiroshima.

Borgarstjórinn Kazumi Matsui sagði frá minningum eins eftirlifenda, pilts sem þá var 15 ára gamall og heyrði frá samnemendum sínum við dauðans dyr grátbiðja um vatn. „Bænirnar bárust frá yngri stúdentum, með illa brend og bólgin andlit, augabrúnir og augnhár sviðin burt, skólabúningin í tætlum.“

Margir eftirlifenda Hiroshima, sem í Japan eru kallaðir „hibakusha“, finna fyrir mikilli sektarkennd yfir að hafa lifað af slíkar hamfarir þar sem svo margir létu lífið. Borgarstjórinn Matsui sagði þó við athöfnina í dag að margir Japanir, sem til þessa hafi ekki viljað tala um þessa hryllilegu lífsreynslu, séu nú byrjaðir að opna sig á gamals aldri.

Þeirra aá meðal er Shigeji Yonekura, 81 árs. „Það er sorglegt að sjá aðra hibakusha deyja einn af öðrum, ár frá ári, en ég vil halda áfram að segja ungu fólki frá minni skelfilegu lífsreynslu, svo lengi sem ég lifi.“

Sá síðasti úr áhöfn bandarísku B-29 sprengjuflugvélarinnar Enola Gay, sem varpaði sprengjunni, lést í síðustu viku. Þremur dögum eftir Hiroshima var kjarnorkusprengju einnig varpað á Nagasaki, þar sem um 70.000 manns létu lífið. Þetta varð  til þess að Japanir gáfust upp þann 15. ágúst 1945.

Í kvöld munu Íslendingar einnig minnast þessa viðburðs með kertafleytingu á Tjörninni í Reykjavík og á Akureyri klukkan 22:30. 

Beðið fyrir fórnarlömbum kjarnorkusprengingarinnar í Hiroshima 1945, í minningarathöfn í …
Beðið fyrir fórnarlömbum kjarnorkusprengingarinnar í Hiroshima 1945, í minningarathöfn í borginni í dag. AFP
Beðið fyrir fórnarlömbum kjarnorkusprengingarinnar í Hiroshima 1945, í minningarathöfn í …
Beðið fyrir fórnarlömbum kjarnorkusprengingarinnar í Hiroshima 1945, í minningarathöfn í borginni í dag. AFP
Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe tók þátt í mínútu þögn í …
Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe tók þátt í mínútu þögn í Hiroshima. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert