Rússar banna vestræn matvæli

Rússar hafa bannað mörg matvæli frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Ástralíu, Noregi …
Rússar hafa bannað mörg matvæli frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Ástralíu, Noregi og Kanada. AFP

Rússar hafa bannað ávexti, grænmeti, kjöt, fisk, mjólk og mjólkurafurðir frá Bandaríkjunum, Evrópusambandinu, Ástralíu, Kanada og Noregi. Bannið tekur í gildi þegar í stað að sögn Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, og mun það vara í eitt ár samkvæmt frétt The Guardian.

Rússneskir embættismenn voru í gær beðnir um að koma með tillögur að vestrænum landbúnaðarafurðum og hráefnum til að vera bönnuð í landinu.

Landbúnaðarráðherra Rússlands, Nikolai Fyodorov, segir að meira magn af kjöti frá Brasilíu og ostum frá Nýja Sjálandi yrði flutt inn til að vega upp á móti bönnuðu matvælunum.

Bannið kemur í kjölfar þess að dótturfyrirtæki rússneska flugfélagsins Aeroflot var kyrrsett en það var liður í refsiaðgerðum ESB vegna stuðnings Rússa við uppreisnarmenn í Úkraínu.

Medvedev sagði að embættismenn væru einnig að íhuga að banna evrópskum flugfélögum að fljúga til Asíu yfir Síberíu.

Rússland er næst stærsti markaður Evrópu fyrir mat og drykk og hefur verið mikilvægur markaður fyrir svínakjöt frá Póllandi og ávexti frá Hollandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert