Kasparov skákar Ilyumzhinov

Garry Kasparov.
Garry Kasparov. AFP

Garry Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, sækist eftir forsæti í Alþjóðaskáksambandinu. Sitjandi forseti, sem er bandamaður Pútíns, heldur því fram að sér hafi verið rænt af geimverum. Einvígið minnir á kaldastríðserjur í skákheimum.

Undanfarin 19 ár hefur sérvitringurinn Kirsan Ilyumzhinov gegnt embætti forseta Alþjóðaskáksambandsins. Þessi 52 ára gamli maður heldur því statt og stöðugt fram að sér hafi eitt sinn verið rænt af geimverum, sem hafi haft samskipti við hann með hugskeytum og flutt hann á aðra plánetu á risastóru geimskipi.

Kasparov gegn Ilyumzhinov

Á mánudaginn gæti hins vegar beðið hans eitt erfiðasta verkefni ferilsins, því Garry Kasparov sækist nú eftir stólnum hans. „Skákin“ verður háð á hliðarlínu ólympíumótsins í skák, sem fer fram í Tromsö í Noregi um þessar mundir. 

Kasparov er ári yngri en Ilyumzhinov og hefur lengi verið þekktur sem andófsmaður í heimalandi sínu, Rússlandi. Hann hefur meðal annars sagt stjórn Pútíns vera einræðisstjórn og að landið hallist æ nær fasisma.

Hann segir Ilyumzhinov vera of náinn Rússlandsforseta og að stjórn skáksambandsins hafi borið merki um „misnotkun og frændhygli“.

„Hvert einasta sendiráð Rússlands hefur verið virkjað til stuðnings við Ilyumzhinov,“ segir Kasparov í samtali við Dagbladet í Noregi í vikunni. „Þetta snýst ekki um skák. Þetta er pólitík,“ segir hann.

Ilyumzhinov hefur verið sakaður um að skaða orðspor Alþjóðaskáksambandsins með því að rækta tengsl við illskeyttustu einræðisherra heims, á borð við Saddam Hussein og Moamer Kadhafi, sérstaklega á þeim tíma þegar alþjóðasamfélagið átti í hvað mestum útistöðum við þá. 

Ilyumzhinov gerði sér meðal annars ferð til Trípólí í júní 2011, á þeim tíma þegar hersveitir NATO létu sprengjum rigna yfir stjórnarherinn, og tefldi skák við Gaddafi. Sá hlaut titilinn „alþjóðlegur stórmeistari“ í kjölfarið.  

Kremlarstjórn að baki Ilyumzhinov? 

Sumir telja að skákpólitík Ilyumzhinovs sé hluti af utanríkispólitík Rússlandsforseta. „Pútín, Rússland, Ilyumzhinov. Þetta er allt saman tengt,“ segir Gerar Demuydt hjá skáktímaritinu Europe Eches, og bendir á að lélegt vinaval Ilyumzhinov hafi komið niður á íþróttinni.

„Ef þú slærð nafninu Ilyumzhinov upp á Google færðu alls konar tengingar við geimverur, Saddam Hussein og Gaddafi. Það hrekur í burtu mögulega styrktaraðila, sem gætu aukið veg íþróttarinnar.“

Ilyumzhinov fer þó hvergi í grafgötur með stuðning sinn við stjórnvöld í Rússlandi.

„Ég er rússneskur föðurlandsvinur,“ sagði hann nýlega í viðtali við New York Times. „Ég elska landið mitt. Kasparov, sem ólst upp hér í Rússlandi, hlaut sína menntun hér, varð stórmeistari hér og fékk héðan fjárhagslega styrki. Hann er lofaður fyrir að berjast gegn Rússlandi og þegnum þess. Er það ekki klikkað?“ spyr Ilyumzhinov. Pútín hefur ekki stutt Ilyumzhinov opinberlega, en talið er nokkuð ljóst að hann njóti stuðnings forsetans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert