Reikna með að Íslendingar fylli skarðið

mbl.is/Sigurður Bogi

Hagmunaaðilar í norskum sjávarútvegi hafa óskað eftir fundi með Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, til þess að ræða hvaða aðgerða grípa eigi til vegna viðskiptaþvingana Rússa sem meðal annars beinast gegn Norðmönnum og gætu leikið útflutningshagsmuni þeirra grátt.

Haft er eftir Audun Maråk, framkvæmdastjóra samtaka norskra útgerðarmanna, á fréttavefnum Fishupdate.com að þrátt fyrir að afleiðingar viðskiptaþvingana Rússa verði líklega neikvæðar sé mikilvægt að fara ekki á límingunum vegna þeirra. Þá segir að norskir útgerðarmenn reikni með að Íslendingar og Færeyingar muni fylla það tómarúm sem skapist í útflutningi á sjávarafurðum til Rússlands þegar lokað verði á norskan útflutning þangað. Maråk vari hins vegar við því að grípa til aðgerða gegn þjóðunum tveimur þar sem það gæti gert stöðuna enn verri.

Maråk segist vona að deilan við Rússa yrði leyst innan skamms á alþjóðlegum vettvangi en í millitíðinni væri mikilvægt að hefja leit að nýjum mörkuðum fyrir norskar sjávarútvegsafurðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert