Tólf eru látnir í Danmörku vegna listseríueitrunar í rúllupylsum. Heilbrigðisyfirvöld hafa rekið eitrunina til matvælaframleiðandas Jørn A. Rullepølser A/S.
Fyrirtækinu hefur verið lokað og allar vörur þess teknar úr hillum matvöruverslana. Unnið er að því að finna allar matvörur fyrirtækisins sem sumar hverjar hafa verið seldar í mötuneyti stórra vinnustaða og gætu þar af leiðandi verið í geymslu.
Meðal annars kom sýkingin upp á spítala á Sjálandi en eitrunin leggst þyngst á þá sem eru veikir fyrir.
Fyrsta dauðsfallið vegna eitrunarinnar var í september á síðasta ári og samkvæmt upplýsingum frá sjúkdómavörnum Danmörku hafa 20 einstaklingar á aldrinum 43-89 ára, búsettir á ólíkum stöðum í landinu, sýkst á undanförnum mánuðum. Þar af hafa 12 látist.
Einkenni sýkingar eru hiti, uppköst, niðurgangur og máttleysi.
Árið 2010 létust sjö af völdum sýkingarinnar í Austurríki. Faraldinn mátti rekja til ostategundar. Fyrirtækið sem bar ábyrgð á ostinum mátti þola lögsóknir.