Kanadísk stjórnvöld hafa ákveðið að gefa Alþjóða heilbrigðisstofnuninni 1.000 skammta af tilraunabóluefni gegn ebólu. Vilja Kanadamenn með þessu leggja sín lóð á vogaskálarnar í baráttunni gegn útbreiðslu ebólu í Vestur-Afríku. Staðfest er að yfir þúsund manns hafa látist úr sjúkdómnum frá því að faraldurinn hófst í febrúar.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, hefur samþykkt að sjúkum verði einnig gefið tilraunalyf, ZMapp. Lyfið er hins vegar af mjög skornum skammti. Þegar hafa þrír Vesturlandabúar fengið það og er einn látinn, aldraður spænskur prestur. Að minnsta kosti tveir líberískir læknar fá lyfið fljótlega.
En bóluefnið, sem einnig er enn á tilraunastigi, er einnig af skornum skammti. Það hefur hingað til aðeins verið prófað á dýrum og verður því nú gefið fólki í fyrsta skipti.
Ebóla hefur greinst í fjórum löndum Vestur-Afríku: Síerra Leóne, Líberíu, Nígeríu og Gíneu.
Líklegt þykir að heilbrigðisstarfsfólk, sem vinnur með sjúkum, fái bóluefnið. Aðeins tólf skammtar eru til af tilraunalyfinu ZMapp, að því er fram kemur í frétt BBC um málið.