Á laugardaginn var Khalid Quto Khalaf kominn í örugga höfn í borginni Zakho, nærri landamærum Íraks og Tyrklands, þegar farsíminn hans hringdi. Á hinum endanum var mágur hans, sem sagði honum að hann og 500 aðrir hefðu verið teknir höndum af vígamönnum Ríkis íslams. „Nú deyjum við. Vertu sæll,“ voru skilaboðin sem hann hafði til fjölskyldunnar.
Þannig hefst frásögn blaðamannanna Jan Gunnar Furuly og Matthew Barber í norska blaðinu Aftenposten, en þeir fóru til norðurhluta Íraks til að ræða við flóttafólk sem hrakist hefur af heimilum sínum vegna uppgangs herskárra íslamista sem vilja koma á fót „kalífadæmi“ á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak.
Blaðamennirnir hittu fjölda skelfingu lostinna Jasída í borginni Zakho í íraska Kúrdistan, við landamæri Tyrklands. Þar á meðal voru Khalid Khalaf og faðir hans, sem flýðu heimaþorp sitt Snune fyrir tæpum tveimur vikum og voru meðal þeirra tugþúsunda sem sátu fastar á Sinjar-fjalli án matar og drykkjar. Sameinuðu þjóðirnar áætla að hátt í 30.000 flóttamenn séu enn á fjallinu og þurfi lífsnauðsynlega á hjálp að halda.
„Fyrir stuttu hringdi mágur minn í mig. Hann sagði mér að honum væri haldið föngnum af skæruliðum Ríkis íslams ásamt 500 öðrum og að þeir hefðu verið dæmdir til dauða vegna þess að þeir vildu ekki snúast til íslams. Án þess að foringjarnir vissu af því hafði einn af skæruliðunum lánað farsímann sinn, svo að mágur minn gæti hringt og kvatt fjölskyldu sína. Skæruliðinn sagði sjálfur að hann gerði það af samúð og líkn,“ hefur Aftenposten eftir Khalaf, með grátstafinn í kverkunum.
Um helgina bárust fréttir af því að um 500 Jasídar hafi verið teknir af lífi, bæði karlar, konur og börn, og að hluti fórnarlambanna hafi verið grafinn lifandi. Ofsóknirnar beinast gegn minnihlutahópum í Írak sem ekki játast íslam, en einnig sjíta-múslímum. Skæruliðarnir í Ríki íslams eru sjálfir súnní-múslímar.
Norsku blaðamennirnir ræddu einnig við Tahsin Rasho Hamo, frá þorpinu Skinia. Þegar vígamenn Ríkis íslams nálguðust heimili hans á sunnudag fyrir viku flýði hann til fjalla til að bjarga lífi sínu. Líkt og svo margir aðrir varð hann viðskila við fjölskyldu sína á flóttanum, þar sem hann hljóp, allslaus, ásamt þúsundum annarra upp brattar fjallshlíðarnar.
„Klukkustund síðar hringdi farsíminn. Það var kona frænda míns sem sagði að fólk sem hafði flúið keyrandi hefði verið stoppað af Ríki íslam við vegatálma, þar sem konur og börn voru aðskilin frá karlmönnum. Síðan byrjuðu hermennirnir að skjóta karlana,“ sagði Hamo hágrátandi í samtali við blaðamennina.
Komið hefur fram að vígamennirnir hafi tekið fjölda Jasída-kvenna til fanga og fært þær í fangelsi í Mósúl. Óttast er að þær verði seldar sem þrælar. Frænka Hamo faldi sig hinsvegar í kjallara húss, þaðan sem hún varð vitni að blóðbaðinu, og flýði síðar til fjalla. Eftir að blaðamennirnir höfðu rætt við Hamo í Zakho fór hann frá borginni aftur til Sinja-fjalls, í von um að finna þar fjölskyldu sína.
„Ég get ekki bara setið hér og fylgst með því hvað gerist. Við verðum að grípa til aðgerða til að hjálpa fólki,“ hefur Aftenposten eftir honum.
Bandaríkin hófu á föstudag loftárásir á Írak, þar sem helstu skotmörk eru vopnabúr vígamannanna í norðurhluta landsins. Í kvöld bárust fregnir af því að 130 bandarískir hernaðarsérfræðingar hafi auk þess verið sendir til Írak.
Þeirra hlutverk verður að leggja mat á stöðuna og gefa ráðleggingar í mannúðarmálum. Þeir munu ekki taka þátt í neinum landhernaði, samkvæmt því sem BBC hefur eftir varnarmálaráðherranum Chuck Hagel.
Fréttaritari BBC í Írak, Jiyar Gol, lýsir einnig neyð Jasídanna sem eru á flótta, en hann fékk að vera farþegi þyrlu í sendingu hjálpargagna til þeirra tugþúsunda sem eru fastar á Sinjar-fjalli. Hann segir þjáningar fólksins augljósar úr lofti.
„Eftir um 40 mínútna flug sáum við fólkið fyrir neðan, örlitlar verur á hlaupum yfir grýtta jörðina, bylgja af fólki sem hljóp í áttina að okkur. Við áttum erfitt með að losa hjálpargögnin þar sem fólkið reyndi í örvæntingu sinni að klifra um borð. Aldrað fólk, börn, foreldrar með ungbörn. Þau voru hungruð, þyrst, skelfingu lostin, og þetta var eina tækifæri þeirra til að komast burt. Þetta var yfirþyrmandi,“ skrifar Gol á vef BBC.
„Við þurftum að fljúga næstum strax á brott og þegar þyrlan lyftist frá jörðu hékk lítil stúlka í bleikum kjól utan í henni, fótleggirnir á henni dingluðu út um opnar dyrnar. Með myndavélina í annari hönd hjálpaði ég til við að toga hana um borð og við flugum burt, en skildum mannmergðina eftir.“
Aðeins var hægt að flytja örfáa burt, svo þúsundir sátu eftir, og þegar þyrlan flaug af stað hófu skæruliðar skothríð á eftir þeim, en án árangurs. Atburðarásin tók innan við mínútu að sögn Gol. „Þegar fólkið um borð áttaði sig á því að martröð þeirra væri lokið fór það hljóðlega að gráta.“
Fólkið var flutt í flóttamannabúðir, þar sem það mun búa við sæmilegt öryggi, en þó algjöra óvissu. Þau hafa misst allar eigur sínar, en eru þó meðal þeirra heppnu. Blaðamaðurinn Gol segir að á leið hans aftur úr flóttamannabúðunum til borgarinnar Irbil hafi streymt fyrir hugsjónum hans svipmyndir af andlitum alls fólksins sem þeir urðu að skilja eftir.
„Þau eru venjulegt fólk sem fram til síðustu viku lifðu venjulegu lífi, en sjá nú fram á enn aðra nóttina fulla af ótta á umsetnu fjalli.“