Sáttasemjarar í Egyptalandi keppast nú við að miðla málum milli Ísraels- og Palestínumanna, áður en þriggja sólarhringa vopnahlé rennur út á miðnætti í kvöld. Báðir aðilar þurfa að sættast á annaðhvort varanlegt vopnahlé eða framlengingu á því, til að koma í veg fyrir að blóðugur hernaður hefjist á nýjan leik.
Friðarviðræðurnar eru sagðar „á afar viðkvæmu stigi“ en vonast er til að samkomulag náist fyrir miðnætti, sem er kl. 21 að íslenskum tíma. Á meðan reyna íbúar Gazasvæðisins að púsla saman lífi sínu á nýjan leik en margir þeirra þurftu að flýja undan hernaði Ísraelsmanna og komu aftur að heimilum sínum í rúst. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 10.000 heimili hafi verið eyðilögð.
Egyptar áttu frumkvæðið að sáttasamkomulaginu sem tók gildi kl. 0:01 á mánudag að staðartíma til þriggja sólarhringa. Óbeinar friðarviðræður fara nú fram með þeirra milligöngu í Kaíró og hafa Egyptar hvatt stjórnvöld í Ísrael og Hamas-hreyfinguna á Gasa til að reyna sitt ýtrasta til að varanlegt vopnahlé megi verða að veruleika.
Lykilkröfur Palestínumanna snúast m.a. um aukið ferðafrelsi, með aðgangi að hafi með höfn á Gaza og flugvelli á svæðinu. Sáttasemjararnir hafa lagt til að þessum kröfum verði frestað þannig að þær verði uppfylltar eftir einn mánuð frá því að varanlegt vopnahlé hefst. Þetta kemur fram á minnisskjali sem Afp-fréttastofan hefur undir höndum.
Þar er líka lagt til að frestað verði framsali á líkum tveggja ísraleska hermanna, sem Hamas-liðar hafa í haldi, gegn því að palestínskum föngum verði sleppt lausum.
Tillögurnar fela auk þess í sér að varnarsvæði meðfram landamærum Gaza við Ísrael verði smám saman minnkað og að gæsla þess verði í höndum öryggissveita sem heyri undir stjórn forseta Palestínu, Mahmuds Abbas.
Palestínumenn, þar á meðal Hamas-hreyfingin, eru sagðir krefjast þess umfram allt að bundinn verði endi á 8 ára herkví Gaza-svæðisins. Minnisblað egypsku sáttasemjaranna er óljóst í afstöðunni til þessa, en þar segir að landamærastöðvar verði opnaðar samkvæmt samkomulagi milli stjórnvalda landanna tveggja.
Þá hafa Palestínumenn fyrir sitt leyti hafnað kröfu Ísraelsmanna um að Hamas-hreyfingin og aðrir á Gaza afhendi öll vopn sín.
Tæplega 2000 Palestínumenn létu lífið í hernaði Ísraelsmanna sem stóð í rúman mánuð á Gaza, frá 8. júlí. Ísraelsmegin hafa 67 látið lífið, flestir þeirra hermenn.