Ólíklegt að fólkinu verði bjargað

Flóttafólk á Sinjar-fjalli.
Flóttafólk á Sinjar-fjalli. AFP

Bandaríkjamenn segja ólíklegt að farið verði í aðgerð til að flytja flóttafólk af Sinjar-fjalli í Írak.

Hermenn Bandaríkjahers flugu til svæðisins í gær og segja færra fólk á fjallinu en fyrstu fréttir hermdu. Þá segja þeir að ástand fólksins sé betra en talið var í fyrstu. Þetta segir bandaríska varnarmálaráðuneytið.

Bandaríkjamenn hafa sent mörg hundruð sérfróða ráðgjafa til Íraks til að meta stöðuna og til hvaða ráðstafana eigi að grípa. 

Flóttafólkið á Sinjar-fjalli hefur hrakist frá heimahögunum vegna árása skæruliða Íslamska ríkisins, IS. Skæruliðarnir hafa lagt undir sig stórt landsvæði, aðallega í norðurhluta Íraks en einnig í Sýrlandi.

Sókn þeirra hefur magnast á undanförnum vikum.

Sameinuðu þjóðirnar höfðu talið að tugþúsund flóttafólks væri á fjallinu. Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir að mun færri séu á svæðinu en talið var, aðallega vegna þess að margir hafa yfirgefið svæðið undanfarna daga. 

Ráðuneytið segir að fólkið hafi aðgang að vatni og matvælum sem m.a. hefur verið kastað úr flugvélum. 

„Þess vegna er aðgerð sem miðar að flutningi fólksins af fjallinu ólíklegur,“ segir í yfirlýsingu Pentagon.

Flóttafólk í Írak.
Flóttafólk í Írak. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert