Fyllti brjóstin með kókaíni

1,7 kíló af kókaíni voru í brjóstum konunnar.
1,7 kíló af kókaíni voru í brjóstum konunnar. AFP

Kona var handtekin á flugvellinum í Madríd með 1,7 kíló af kókaíni í brjóstum sínum fyrir skömmu. Konan, sem var frá Venesúela, var nýkomin úr flugi frá Bogota í Kambódíu þegar hún var handtekin.

„Á meðan skoðun á farþegum frá Bogota stóð yfir vakti hegðun eins farþegans grunsemdir fíkniefnalögreglu,“ sagði spænska lögreglan í tilkynningu um málið. 

Leit í farangri konunnar bar engan árangur en lögregluþjónar framkvæmdu líkamsleit á konunni. Komu þá afmynduð brjóstin, sem full voru af kókaíni, upp um hana. Á þeim tímapunkti hóf konan að hegða sér undarlega og játaði að lokum að brjóst hennar væru fyllt með kókaíni.

Skömmu síðar var konan flutt á spítala þar sem 1,7 kíló af kókaíni var fjarlægt úr brjóstum hennar. 

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem spænskir lögregluþjónar sjá eiturlyfjasmyglara nota þessa aðferð því í desember árið 2012 var kona handtekin í Barselóna með 1,4 kíló af kókaíni í brjóstum sínum. Sú kom einnig frá Bogota en enn blæddi úr skurðum hennar þegar lögreglumenn höfðu afskipti af henni.

Sérstök lögregludeild starfar á flugvellinum í Madríd sem hefur það verkefni að hafa eftirlit með farþegum sem koma frá löndum sem þekkt eru fyrir eiturlyfjasmygl.

Það sem af er ári hafa lögreglumenn á flugvellinum í Madríd gert upptæk um 500 kíló af kókaíni, sex kíló af heróíni og framkvæmt 189 handtökur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert