Forsetaframboðið í uppnámi

Perry er ákærður í tveimur liðum.
Perry er ákærður í tveimur liðum. AFP

Rick Perry, ríkisstjóri í Texas, hefur verið ákærður fyrir misnotkun á valdi, en málið gæti sett áætlanir hans um mögulegt forsetaframboð árið 2016 í uppnám. Ákæran er í tveimur liðum, en Perry er gefið að sök að hafa misnotað stöðu sína sem ríkisstjóri og beitt kúgunum þegar hann hótaði að skera á fjárframlög til stofnunar sem sér m.a. um rannsókn og meðferð spillingarmála hjá embættismönnum. Þetta kemur fram í frétt Sky News.

Perry segist hafa sett þrýsting á stofnunina í því skyni að fá ríkissaksóknarann og demókratann Rosemary Lehmberg til að segja af sér eftir að hún var sakfelld fyrir ölvunarakstur. Perry stóð við hótun sína um að skera á fjárframlög eftir að Lehmberg neitaði að segja af sér.  

Saka stofnunina um nornaveiðar

Andstæðingar Perrys vilja hins vegar meina að hann hafi viljað minnka fjármagn deildarinnar vegna þess að hún vann að rannsókn á spillingarmáli tengdu krabbameinssjóði sem Perry er aðili að. Ríkisstjórinn Perry er repúblikani, en flokksfélagar hans hafa lengi sakað stofnunina, sem talin er hallast að demókrataflokknum, um nornaveiðar gegn repúblikönum. Þessu hafnar sérstaki saksóknarinn Michael McCrum þó alfarið og segir pólitík ekki tengjast málinu á nokkurn hátt.

Perry hefur ekki sóst eftir endurkjöri í embætti ríkisstjóra og er það talið benda til þess að hann muni sækjast eftir útnefningu repúblikanaflokksins í forsetaframboð árið 2016. Perry er umdeildur meðal Bandaríkjamanna, en hann er m.a. yfirlýstur andstæðingur fóstureyðinga og hjónabanda samkynhneigðra. Auk þess er hann ötull stuðningsmaður dauðarefsinga og hafa yfir 270 aftökur farið fram í Texas frá því hann tók við embætti árið 2000.

Frétt Sky News

Perry er andsnúinn fóstureyðingum og hjónaböndum samkynhneigðra, en ötull stuðningsmaður …
Perry er andsnúinn fóstureyðingum og hjónaböndum samkynhneigðra, en ötull stuðningsmaður dauðarefsinga. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert