Vopnahlé framlengt á Gaza

Palestínskir sjómenn sitja við höfnina í Gaza. Samið hefur verið …
Palestínskir sjómenn sitja við höfnina í Gaza. Samið hefur verið um sólarhrings framlengingu á vopnahléinu á milli Palestínumanna og Ísraela. Mynd/AFP

Samþykkt hefur verið að framlengja vopnahléið á Gaza í einn sólarhring og mun það því standa til miðnættis á þriðjudaginn. Þetta staðfestir fulltrúi palestínskra stjórnvalda í kvöld. Vonast er til að framlengingin gefi aðilum betra tækifæri til þess að vinna að vopnahléi til lengri tíma.

Fimm daga vopnahléi átti að ljúka á miðnætti í kvöld. „Við höfum náð samkomulagi um 24 klukkustunda vopnahlé,“ sagði fulltrúi palestínskra stjórnvalda en hann er jafnframt fulltrúi þeirra í viðræðunum við Ísraela sem fram fara í Kaíró. 

Viðræðurnar sem standa nú yfir í Kaíró byggja á tillögu sem Egyptar hafa lagt fram. Í þeim tillögum er komið að einhverju leyti til móts við kröfur Palestínumanna um að aðeins verði létt á umsátrinu um Gaza. Munu viðræðurnar halda áfram næstu daga. 

Fulltrúar Hamas hafa haldið því fram lengi að ekki komi til greina að framlengja vopnahléið sem nú stendur yfir. Þeir eru hins vegar undir miklum þrýstingi frá Egyptum, sem eiga landamæri að vesturhluta Gaza. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert