Her Íraks og vopnaðar stuðningssveitir hans hófu mikla sókn í dag gegn liðsmönnum Íslamska ríkisins með það að markmiði að taka borgina Tikrit úr höndum þeirra. Þetta kemur fram í frétt AFP og haft eftir háttsettum heimildarmanni innan hersins. Íraski herinn hefur tvisvar áður reynt að taka borgina en mistekist það.
Fram kemur í fréttinni að sókn hersins hafi hafist snemma í morgun og sótt hafi verið að Tikrit bæði frá suðri og suðvestri en borgin er um 160 kílómetra norður af höfuðborginni Bagdad. Sóknin var hafin í þeim tilgangi að koma Íslamska ríkinu í opna skjöldu en liðsmenn þess hafa verið uppteknir í átökum við hersveitir Kúrda í norðurhluta landsins.
Tikrit hefur verið á valdi Íslamska ríkisins frá því 11. júní en sókn liðsmanna þess í Írak hófst skömmu áður. Sóknin kom íröskum stjórnvöldum í opna skjöldu og hörfaði her landsins undan Íslamska ríkinu. Ekkert virtist geta stöðvað framsókn þess þar til hersveitum Kúrda tókst það nýverið með aðstoð frá vestrænum ríkjum.