Samtökin Íslamska ríkið (IS) hafa birt myndbandsupptöku af aftöku bandaríska blaðamannsins James Foley en hans hafði verið saknað frá árinu 2012. Samtökin segjast hafa hálshöggvið Foley í hefndarskyni fyrir loftárásir Bandaríkjahers á liðsmenn samtakanna í Írak.
BBC vísar til orða móður Foleys, Diane, á Facebook þar sem hún segist stolt af syni sínum. „Hann fórnaði lífi sínu til þess að reyna að upplýsa fyrir heiminum þær þjáningar sem sýrlenska þjóðin býr við,“ skrifar hún.
Ekki hefur fengist staðfest hvort myndskeiðið er falsað, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum stjórnvöldum.
Foley hefur starfað lengi í Mið-Austurlöndum fyrir Global Post og fleiri fjölmiðla, þar á meðal AFP-fréttastofuna.
Í myndskeiðinu sem nefnist Skilaboð til Bandaríkjanna (A Message to America) sést maður, sem talið er að sé James Foley, klæddur appelsíngulum klæðnaði, krjúpandi fyrir framan vopnaðan svartklæddan mann. Skæruliðinn, sem talar með breskum hreim og segist liðsmaður IS, segir dauða blaðamannsins í beinu framhaldi af árásum Bandaríkjahers á Írak.
Í myndskeiðinu sést annar fangi sem liðsmenn IS segja einnig vera bandarískan blaðamann.
Bandarískur blaðamaður tekinn af lífi