Faðir Breiviks finnur til sektarkenndar

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hlaut 21 árs dóm árið 2012.
Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hlaut 21 árs dóm árið 2012. AFP

Faðir norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik segist finna til sektarkenndar og telur sig að hluta til bera ábyrgð á gjörðum sonar síns. Þetta kemur fram í nýrri bók sem Jens Breivik hefur skrifað.

Árið 2012 var Anders Behring Breivik dæmdur fyrir að myrða 77 manns í júlí 2011. Breivik sprengdi sprengju í miðborg Óslóar og skaut síðan ungmenni til bana á Útey í nágrenni borgarinnar. Hann hlaut 21 árs fangelsi fyrir ódæðið sem er versta fjöldamorð sem framið hefur verið á friðartíma í sögu Noregs.

Bókin, sem verður gefin út í október, ber titilinn Mín sök? Saga föður. Þar segir m.a. frá því að foreldrar Breiviks skildu þegar hann var eins árs og þá segir Jens Breivik að hann hafi verið í litlu sambandi við son sinn, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

„Ég finn til sektarkenndar og mér finnst ég bera einhverja ábyrgð. Hvað hefði gerst ef ég hefði verið betri faðir? Hefði Anders gert það sem hann gerði?“ skrifar Breivik. 

Jens Breivik, sem er fyrrverandi norskur ríkiserindreki, er kominn á eftirlaun og er nú búsettur í Suður-Frakklandi. Hann skrifaði bókina með aðstoð rithöfundar og talið er að hann muni setja spurningarmerki við sína hegðun sem foreldris og það hlutverk sem hann lék í lífi sonarins sem varð að fjöldamorðingja og hægri öfgamanni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert