Fjögur börn eru meðal þeirra sem létust í loftárásum Ísraela á Gaza í nótt. Hernaðararmur Hamas hefur staðfest að þrír herforingjar Hamas hafi fallið í árásunum í nótt.
Hernaðararmur Hamas, Ezzedine al-Qassam Brigades, hefur nafngreint þremenningana:Mohammed Abu Shamala, Raed al-Atar og Mohammed Barhum. Vitni segja að mennirnir hafi látist í árásum Ísraela á borgina Rafah sem er við landamæri Egyptalands. Fjögurra hæða íbúðarhús jafnaðist við jörðu í árásinni.
Í gær reyndi Ísraelsher að drepa yfirmann hernaðararms Hamas, Mohammed Deif, en hann lifði árásina af. Aftur á móti lést eiginkona hans og sjö mánaða gamall sonur hans í árásinni ásamt fleirum óbreyttum borgurum. Hamas hefur varað flugfélög við því að fljúga til Tel Aviv en allt flug þangað er samkvæmt áætlun þrátt fyrir það.
Samkvæmt upplýsingum frá hjúkrunarfólki létust sjö í árásum Ísraelshers í nótt í Rafah og nokkrir í árásum hersins á Nusseirat flóttamannabúðirnar. Um 2060 Palestínumenn og 67 Ísraelsmenn hafa látist í átökunum milli Ísraelshers og Hamas síðan 8. júlí.