Samtökin Ríki íslams er mesta ógn sem Bandaríkin hafa staðið frammi fyrir undanfarin ár, að sögn bandarískra stjórnvalda.
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Chuck Hagel, segir að loftárásir Bandaríkjamanna hafi hægt á framgangi samtakanna í Írak en búast mætti við því að þau myndu eflast á ný.
Martin Dempsey, forseti bandaríska herráðsins, segir að ekki sé hægt að stöðva Ríki íslams án þess að ráðst til atlögu við búðir þeirra í Sýrlandi. Fyrr í vikunni birtu samtökin myndskeið þar sem liðsmaður þeirra sést taka bandaríska blaðamanninn James Foley af lífi.
BBC greinir frá því að formleg rannsókn sé hafin á dauða Foleys og varar dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Eric Holder, morðingja hans við því að Bandaríkin gleymi ekki svo glatt.
Líkt og fram hefur komið reyndi sérsveit á vegum bandaríska hersins að bjarga Foley og fleiri bandarískum gíslum úr haldi í Sýrlandi án árangurs. Ríki íslams reyndi að fá greiddar 100 milljónir evra í lausnarfé fyrir Foley fyrir nokkru.
Á blaðamannafundi í gær lýsti Hagel Ríki íslams sem yfirvofandi hættu. Samtökin væru miklu meira en hryðjuverkahópur. Ríki íslams hafi yfir hugmyndafræði að ráða og hernaðarkænsku. Samtökin séu gríðarlega fjármögnuð og þetta allt saman sé eiginlega langt umfram það sem hingað til hefur sést.
Í Bretlandi leitar nú lögregla og leyniþjónustan upplýsinga um manninn sem kemur fram í myndskeiðinu og tekur Foley af lífi.
Óstaðfestar fregnir herma að maðurinn, sem talar með breskum hreim, komi frá Lundúnum eða suðausturhluta Englands. Í myndskeiðinu er því hótað að annar Bandaríkjamaður verði tekinn af lífi ef bandaríski herinn hætti ekki loftárásum á búðir Ríkis íslams í norðurhluta Íraks. Ekki hefur verið farið að þeim óskum.