Skæruliðar skutu 70 manns til bana við mosku í Írak í dag. Skæruliðarnir eru taldir vera sjía-múslímar en þeir sem létust voru súnna múslímar.
Skotárásin átti sér stað í héraðinu Diyala. Þar er þegar ríkjandi reiði meðal súnna múslíma gagnvart sjítum, en súnnítar eru minnihluti í Írak og sjítar leiða ríkisstjórnina.
Ekki er vitað um ástæður árásarinnar en líklegt þykir að hún sé einhverskonar hefndaraðgerð.
Læknar á svæðinu áætla að sjötíu manns hafi látist í dag og tuttugu særst. Skæruliðarnir skutu á fólkið með vélbyssum.
Ibrahim Aziz Ali, sem missti 25 ára gamlan frænda sinn í árásinni í dag sagði fréttastofunni AFP að hann og aðrir íbúar á svæðinu hefðu heyrt byssuhvelli og flýtt sér að moskunni. Þar var skotið á þá af leyniskyttum.
Að sögn Ali hurfu skæruliðarnir þegar að íraski herinn kom á svæðið. „Þetta var ekkert nema fjöldamorð,“ bætti hann við.
Ali sagði jafnframt að hann vonaðist til þess að skæruliðarnir yrðu ákærðir en ef ekki „munum við sækjast eftir réttlæti með okkar eigin höndum.“