Flogið hefur verið með breskan ríkisborgara, sem smitaðist af ebólu í Síerra Leóne, til síns heimalands í sérútbúinni flugvél breska flughersins. Maðurinn vann við hjúkrun en verður nú hafður í einangrun í Bretlandi.
Líðan mannsins er sögð stöðug. Sjúklingurinn verður fluttur í einangrunarklefa á sjúkrahúsi í Norður-London en klefinn er eini sinnar tegundar í Bretlandi. Sjúklingurinn er fyrsti Bretinn sem greinst hefur með ebólu en alls hafa um 1.420 manns látist síðan faraldurinn braust út í Afríku.
„Bresk sjúkrahús eru þekkt fyrir að takast á við utanaðkomandi sjúkdóma og þessi sjúklingur verður hafður í einangrun og fær bestu meðferð sem möguleg er,“ sagði læknirinn Paul Cosford.
Prófessor John Watson sagði að mikilvægt væri fyrir íbúa landsins að átta sig á því að tilfelli þar sem einn Breti greindist með ebólu væri afar lítil ógn við heilbrigði Breta.
Sjá frétt BBC um málið.