François Hollande, forseti Frakklands, hefur beðið Manuel Valls, forsætisráðherra, að gera breytingar á ríkisstjórn landsins.Valls tók við embætti forsætisráðherra í lok mars sl. en hann var áður innanríkisráðherra.
Valls gekk á fund Hollande í morgun og sagði af sér sem forsætisráðherra og hefur Hollande fallist á afsögnina en um leið beðið hann um að mynda nýja ríkisstjórn.
Ástæðan fyrir beiðni Hollande er gagnrýni ráðherra efnahagsmála, Arnaud Montebourg og Benoit Hamon menntamálaráðherra gagnrýndu efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
Það vakti mikla athygli er ráðherrarnir tveir tóku saman höndum í gagnrýni sinni á efnahagsstefnu franskra stjórnvalda um helgina. Í viðtölum sem birtust við þá gagnrýndu þeir ofuráherslu ríkisstjórnarinnar á að draga úr halla á fjárlögum og vilja þeir að meiri áhersla verði lögð á vöxt efnahagskerfisins.
Montebourg var í viðtali við Le Monde og þar sagði hann að höfuðáherslan eigi að vera á að komast út úr kreppunni og að fjárlagahallinn eigi að vera í öðru sæti. Sagði hann að það væri hrein og klár geðveiki að ætla að draga úr hallanum með þvingunum því að það myndi auka atvinnuleysi og þess fyrir utan væri það pólitískt sjálfsvíg. Sagði hann að með þessu væri verið að þvinga ríki Evrópu í hendur öfgaflokka sem vildu sjá Evrópusambandið liðast í sundur.
Montebourg réðst einnig á Þjóðverja og sagði að frönsk stjórnvöld myndu ekki lengur sætta sig við að sitja og standa líkt og stjórnvöld í Berlín fari fram á.
Ríkisstjórn Valls var einungis við völd í fimm mánuði. Ríkisstjórnin á undan, undir forsæti Jean-Marc Ayrault, fór frá völdum í mars eftir að Sósílistaflokkurinn galt afhroð í sveitarstjórnarkosningunum. Búist er við að einhverjir af lykilstuðningsmönnum Valls innan fráfarandi ríkisstjórnar muni áfram gegna embætti ráðherra.
Talið er að ný ríkisstjórn verði mynduð á morgun og ólíklegt að Montebourg og Hamon verði áfram meðal ráðherra.