Pandabjörninn Ai Hin, sex ára, er talin hafa gert sér upp þungun til þess að fá betri meðferð í dýragarði í Kína. Þessu greina kínverskir fjölmiðlar frá.
Hætt hefur þurft við það sem átti að vera fyrsta beina útsending frá fæðingu pönduhúns vegna þessa en efasemdir kviknuðu meðal starfsmanna dýragarðsins þegar pandan fór að haga sér eðlilega tveimur mánuðum eftir að fyrstu einkenni um þungun áttu sér stað.
Ai Hin, sem þykir mjög greind, sýndi ýmis ummerki um þungun í sumar líkt og breytingu á matarlyst og minni hreyfigetu. Eftir það var hún flutt í herbergi með loftræstingu þar sem hún hafði aðgang að meiri æti en venjulega og starfsmenn rannsóknarstöðvar dýragarðsins fylgdust með henni allan sólarhringinn.
Sérfræðingar segja þetta ekki einsdæmi og greindar pöndur eigi það til að breyta hegðun sinni og sýna merki um fyrstu stig þungunar til þess að komast í betri aðstöðu og meiri mat. Líklega sé það sem hefur gerst í tilfelli Ai Hin.
Ólíklegt er því að bein útsending af fæðingu pönduhúns Ai Hin fara fram en sérfræðingar í dýragarðinum í Edinborg, Bretlandi, vonast til þess að tæknifrjóvgun á pöndunni Tian Tian hafi borið árangur og næsta fæðing pönduhúns verði þar.