Átökin í Úkraínu eru að fara úr böndunum og við erum að nálgast þau tímamót að það brjótist út allsherjar stríð í landinu. Þetta sagði Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, á blaðamannafundi í Brussel í dag, en hann sat leiðtogafund ESB.
Catherine Ashton, utanríkismálastjóri ESB, sakaði Rússa um að hafa gert árás á Úkraínu. Rússar hafa neitað því að hermenn þeirra taki þátt í átökunum í Úkraínu.
Poroshenko sagði að árás hefði verið gerð á landið og her landsins væri að reyna að verjast hryðjuverkamönnum. Hann sagði að ef Rússar færu að beita herafla sínum í Úkraínu myndi skella á allsherjar styrjöld í landinu.