Reiði vegna plássleysis í háloftunum

AFP

Banda­rísk farþega­flug­vél neydd­ist til að lenda í Bost­on á miðviku­dag eft­ir að rifr­ildi braust út á milli farþega vegna pláss­leys­is. Þetta er í annað sinn í vik­unni sem svipað at­vik á sér stað í háloft­un­um.

Farþega­vél American Air­lines var að fljúga frá Miami í Banda­ríkj­un­um til Par­ís­ar í Frakklandi þegar rifr­ildi braust út milli karls og konu, en maður­inn var ósátt­ur við það að kon­an, sem sat fyr­ir fram­an hann, skyldi halla sæti sínu aft­ur. Þetta kem­ur fram á vef BBC.

Lög­reglu­menn, sem voru um borð í vél­inni, náðu að skakka leik­inn. 

Maður­inn, hinn 61 árs gamli Ed­mund Al­ex­andre frá Par­ís, var hand­tek­inn við kom­una til Bost­on. Hann hef­ur verið ákærður fyr­ir að trufla störf flugáhafn­ar í miðju flugi.

Al­ex­andre er sagður hafa brugðist reiður við þegar kon­an reyndi að halla sæt­inu. Þegar einn úr áhöfn vél­ar­inn­ar reyndi að róa Al­ex­andre varð hann enn reiðari og greip í hand­legg manns­ins.

Svipað at­vik átti sér stað sl. sunnu­dag, en þá varð vél United Air­lines, sem var að fljúga frá Newark til Den­ver, að lenda í Chicago. Í því flugi hafði farþegi sett sér­stak­an búnað, svo­kallaðan Knee-Def­end­er, á sætið fyr­ir fram­an sig, en búnaður­inn kem­ur í veg fyr­ir að hægt sé að halla sæt­inu aft­ur. Kona sem sat í sæt­inu var ekki sátt og skvetti vatni yfir mann­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert