Mikill meirihluti Norðmanna er sem fyrr andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Sentio gerði fyrir norsku dagblöðin Nationen og Klassekampen.
Samkvæmt skoðanakönnuninni eru 70,5% Norðmanna andvíg aðild að ESB en 17,8% henni hlynnt. Meirihluti kjósenda allra stjórnmálaflokka í Noregi er á móti aðild. Þar með talið kjósendur Hægriflokksins sem er hlynntastur inngöngu í sambandið. 29,9% kjósenda flokksins styðja aðild að ESB en 60% eru hins vegar á móti henni.
Mest andstaða er á meðal kjósenda norska Miðflokksins en einungis 4,1% þeirra styður aðild að ESB. Mestur stuðningur er hins vegar á meðal kjósenda Venstre en fjórir af hverjum tíu kjósendum hans styðja aðild.
Frá þessu er greint á fréttavefnum Abcnyheter.no