Úkraína gæti þurft 19 milljarða evra að láni til að endurreisa efnahagslíf landsins til viðbótar við fyrri lánveitingar takist úkraínskum stjórnvöldum ekki að sigrast á aðskilnaðarsinnum í austurhluta þess fyrir lok þessa árs.
Fram kemur í frétt AFP að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi varað við þessu í dag. Sjóðurinn sagðist engu að síður ætla að afhenda Úkraínu aðra greiðslu efnahagsaðstoðar við landið sem er að upphæð 1,39 milljarðar dollara en í heildina er aðstoðin 17,1 milljarður dollara. Það sé gert þrátt fyrir mikla óvissu í landinu og að því gefnu að vestræn ríki séu reiðubúin að leggja fram viðbótaraðstoð gerist þess þörf.