„Raunveruleg fyrirætlan Pútíns er að eyða Úkraínu og endurreisa Sovétríkin,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá Arsenij Jatsenjúk, forsætisráðherra Úkraínu, sem send var út í dag og vísar þar til Vladimírs Pútín forseta Rússlands. Ráðherrann sagði að rússnesk stjórnvöld hefðu hunsað eða svikið alla samninga sem gerðir hefðu verið til þessa.
Greint er frá þessu á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þar segir að Pútín hafi lagt til lausn á átökunum í Úkraínu sem feli í sér að aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins hætti sókn sinni gegn því að stjórnvöld í Kænugarði kalli úkraínska hermenn þaðan og hætta stórskotaliðsárásum sínum á svæði sem aðskilnaðarsinnar stjórna.
Hernaðarátök halda á sama tíma áfram í austurhluta Úkraínu. Aðskilnaðarsinnar umkringdu nú síðast bæinn Ilovaysk sem var á valdi úkraínska hersins. Í það minnsta 87 úkraínskir hermenn hafa fallið í átökunum um bæinn.
Fyrirhugaðar heræfingar Atlantshafsbandalagsins (NATO) undir forystu Bandaríkjamanna í Póllandi við landamæri landsins að Úkraínu um miðjan þennan mánuð fara fram eins og stefnt var að en fram kemur í fréttinni að litið sé á þá ákvörðun að hætta ekki við þær sem yfirlýsingu um að bandalagið muni styðja við bakið á Úkraínu.
Þá hafa frönsk stjórnvöld lýst því yfir að hugsanlegt sé að herskip sem til stóð að selja Rússum verði ekki afhent vegna ástandsins í Úkraínu.