Fjölskylda bandaríska blaðamannsins Steven Sotloff, sem tekinn var af lífi af liðsmönnum Ríki íslam sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi. Þar kemur fram að þrátt fyrir að hann hafi fórnað lífi sínu til þess að segja frá þjáningum fólks á stríðshrjáðum svæðum þá væri hann engin hetja.
Talsmaður fjölskyldunnar, Barak Barfi, sagði á fundi með blaðamönnum í Flórída í gærkvöldi að Steven Sotloff hafi viljað gefa þeim sem ekki ættu sér málpípu rödd. Hann hafi ekki verið einn þeirra fréttamanna sem væri háður stríðsátökum og hann hefði ekki haft neinn áhuga á að verða Lawrence of Arabia nútímans.
BBC birtir yfirlýsingu fjölskyldunnar í heild á vef sínum og er hægt að lesa hana hér.
Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, segir að Ríki íslam verði leitt að forgarði helvítis og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin muni aldrei láta samtök eins og Ríki íslam kúga sig. Heldur muni Bandaríkin mynda bandalag um að niðurlægja og eyða Ríki íslam.
Að sögn Bidens munu Bandaríkin ekki hætta fyrr en skæruliðarnir verði dregnir fyrir dóm og að bandaríska þjóðin væri miklu sterkari og einbeittari en nokkur óvinur gæti gert sér grein fyrir.