Petro Porosénkó, forseti Úkraínu, segist vera fremur bjartsýnn á að samkomulag náist við Rússa um að binda endi á átökin í austurhluta Úkraínu. Á sama tíma hafa rússnesk yfirvöld bannað innflutning á sælgæti frá Úkraínu.
Viðræður um vopnahlé hefjast um hádegisbilið í Hvíta-Rússlandi í dag. Á sama tíma ræða leiðtogar ríkja Atlantshafsbandalagsins um hertar aðgerðir gagnvart Rússlandi ef þeir hætta ekki afskiptum af átökum í austurhluta Úkraínu. Leiðtogarnir eru á fundi í Wales en fundur þeirra hófst í gær. Fyrir Íslands hönd eru þeir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á fundinum.
Vesturveldin saka Rússa um að send her og hergögn inn í Úkraínu þar sem uppreisnarmenn hliðhollir Rússum berjast við stjórnarherinn. Þessu neita stjórnvöld í Moskvu. Yfir 2.600 manns hafa látist frá því átökin hófust fyrir fimm mánuðum síðan.
Í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag er fjallað um leiðtogafund NATO og ástandið í Úkraínu. Þar kemur fram að leiðtogar NATO-ríkja gagnrýndu í gær framgöngu Rússa í Úkraínudeilunni á fundi sem lýst var sem mikilvægasta leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins eftir að kalda stríðinu lauk. Leiðtogarnir ræddu einkum átökin í austanverðri Úkraínu, sem sumir fréttaskýrendur telja vera alvarlegustu hernaðarógn sem bandalagið hafi staðið frammi fyrir í áratugi. Á fundinum var einnig rætt um leiðir til að takast á við hættuna sem stafar af samtökum íslamista sem hafa náð stórum svæðum í Írak og Sýrlandi á sitt vald.
„Á fundinum stígum við mikilvæg skref til að sporna gegn þessum ógnum,“ sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, áður en tveggja daga leiðtogafundur bandalagsins hófst í Wales í gær.
Fréttaskýrendur BBC sögðu þetta mikilvægasta fund NATO í áratugi og niðurstöður hans gætu ráðið miklu um það hvort bandalagið gæti tekist á við öryggisvandamál 21. aldarinnar.
Michael Winiarski, fréttaskýrandi sænska blaðsins Dagens Nyheter, telur Úkraínudeiluna alvarlegustu ógn sem NATO hafi staðið frammi fyrir í rúm 50 ár, eða frá Kúbudeilunni árið 1962. Til að mynda hafi innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu árið 1968 ekki stefnt heimsfriðnum í jafnmikla hættu og hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu nú.
Talið er að Úkraínuher þurfi þungavopn og aðra aðstoð frá NATO-ríkjum til að eiga möguleika á að sigra uppreisnarmennina sem eru taldir hafa notið öflugs stuðnings Rússa í átökunum. Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Þýskalandi og fleiri NATO-ríkjum hafa hingað til verið treg til að senda Úkraínuher þungavopn því slík aðstoð gæti orðið til þess að Rússar gengju enn lengra í stuðningi sínum við uppreisnarmennina og átökin mögnuðust. Ljóst er að Úkraínuher mætti sín lítils gegn rússneska hernum, sem er með um 750.000 manns undir vopnum, og NATO-ríkin vilja ekki dragast inn í átökin. Þau hafa því bundið vonir við að hertar refsiaðgerðir dugi til að knýja Rússa til að binda enda á blóðsúthellingarnar.