Íbúar Barcelona eru búnir að fá sig fullsadda af drukknum og nöktum ferðamönnum sem kútveltast um götur borgarinnar. Íbúar við eina af sjávargötum borgarinnar hafa því ákveðið að taka höndum saman um að losa sig við óværuna.
Strandhverfið La Barceloneta í Barcelona hefur löngum verið vinsælt meðal erlendra ferðamanna en íbúarnir eru ekki jafn hrifnir af gleðilátum margra þeirra. Í síðasta mánuði þótti ýmsum nóg komið er dagblað birti myndir af nöktum ferðamönnum með flírubros á vör að kaupa inn í matvöruverslun í hverfinu.
Fjölskyldur í hverfinu tóku sig saman og streymdu út á götur og mótmæltu þessu athæfi ferðamannanna. Krefjast þeir þess að meira skikki verði komið á ferðamannaiðnaðinn. Einkum eru þeir ósáttir við að ferðamenn hrúgist inn í hverfið þeirra og haldi til í óskráðum íbúðum meðal innfæddra. Þeir hafa komið fyrir veggspjöldum þar sem þeir benda ferðamönnum á að fjölbýlishús í hverfinu séu heimili en ekki hótel.
„Þetta er daglegur viðburður hér. Á næturnar eru haldin ólögleg partý í hverfinu, dauðadrukkið fólk sem æpir og gólar á götunum. Þetta er svívirða og óþolandi,“ segir Manel Serrano, íbúi í hverfinu og þátttakandi í mótmælunum.
La Barceloneta var áður fiskimannahverfi en þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Barcelona árið 1992 varð hverfið eitt það fínasta í borginni. Þrátt fyrir það hefur því tekist að halda kostum sínum þar sem íbúarnir hafa búið kynslóð eftir kynslóð. En nú hafa svokallaðar ferðamannaíbúðir tekið yfir og fasteignaverð rokið upp enda hægt að græða vel á því að leigja ferðamönnum til skamms tíma.