Barack Obama, Bandaríkjaforseti, kom við í Stonehenge í Bretlandi á leið sinni heim frá leiðtogafundi Nato í Wales. Þyrla hans lenti hjá minjunum og fór hann í 20 mínútna skoðunarferð um svæðið með leiðsögumanni.
Forsetinn var að sögn viðstaddra afar hrifinn af staðnum. „Hversu svalt er þetta?“ á forsetinn að hafa sagt í sífellu.
Heather Sabire, sem starfar hjá England Heritage samtökunum sem hafa yfirumsjón yfir svæðinu, segir Obama hafa verið afar áhugasaman um minjarnar. „Hann var áhugasamur um þær staðreyndir sem við höfum um minjarnar og líka um þær ráðgátur sem enn eru óleystar. Hann spurði margra spurninga,“ sagði Sabire í samtali við BBC.