Fyrir meira en hundrað árum voru íbúar Lundúna logandi hræddir við mann sem nefndist Kobbi kviðrista (e. Jack the Ripper). Lögreglan yfirheyrði hvern manninn á fætur öðrum í leit að hinum fræga morðingja en allt kom fyrir ekki. Fór svo að enginn var dæmdur fyrir morðin og ótal þjóðsögur hafa orðið til um það hver þessi maður hafi verið í raun og veru. Þá hafa margir rannsakað málið sjálfir og talið sig hafa leyst gátuna og í dag kom upp annað slíkt mál.
Árið 2007 keypti maður að nafni Russell Edwards, sjal á uppboði, sem á að hafa verið í eigu eins fórnarlamba Kobba. Á sjalinu eru blóðdropar sem taldir eru hafa tilheyrt honum. Edwards ákvað að láta erfðafræðing að nafni Jari Louhelainen rannsaka blóðið og nú, átta árum síðar telja þeir sig vita hver hinn frægi morðingi var. Með því að bera saman DNA úr bæði fórnarlambinu og morðingjanum og síðan afkomendum þeirra telja þeir sig nú vita að Kobbi kviðrista hafi verið pólskur innflytjenda að nafni Aaron Kosmiski. Kosmiski var yfirheyrður af lögreglunni í nokkur skipti á sínum tíma í tengslum við morð en hann var aldrei ákærður fyrir neitt.
Kosmiski hafði áður starfað sem hárgreiðslumaður. Í gömlum lögregluskýrslum er sagt að hann hafi verið talinn veikur á geði og stundað sjálfsfróun af miklum krafti. Eyddi hann stórum hluta ævinnar á geðspítala.
Sjá frétt Daily Mail um málið.
Sjá frétt mbl.is: Er Feigenbaum Kobbi kviðrista?
Sjá frétt mbl.is: Er Kobbi kviðrista fundinn?